Fréttir
  • Oilean Arann kemur til landsins

Að hugsa vel um fé ríkisins

Ný Grímseyjarferja

7.6.2007

Vegagerðin hefur skilgreint hlutverk sitt þannig að það sé ”að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.” Með þessu er átt við að samgöngur séu tryggar allt árið með eins litlum tilkostnaði og eins miklum þægindum og öryggi og hægt er fyrir vegfarendur.

Fé til vegaframkvæmda og annarrar starfsemi Vegagerðarinnar kemur af mörkuðum tekjustofnum og fjárlögum og kemur því úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þess vegna leggur Vegagerðin áherslu á að samgöngur séu tryggar samtímis því að það sé gert með eins litlum tilkostnaði og hægt er.

Nokkuð hefur verið fjallað um nýja Grímseyjarferju. Nýja ferju þarf sem stenst Evrópureglur. Það liggur samt ekki mikið á því núverandi Sæfari má sigla til 1. júlí árið 2009. Það þýðir hinsvegar ekki að Vegagerðin sé sátt við þann drátt sem hefur orðið á endurbótum á notuðu írsku ferjunni sem keypt var haustið 2005.

Ítrekað hefur verið gagnrýnt að ekki hafi verið smíðað nýtt skip. Írska ferjan Oilean Arann var smíðuð árið 1992 og telst því ekki mjög gamalt skip, hinsvegar var vitað að skipið var í slæmu ásigkomulagi og hafði fengið lítið sem ekkert viðhald. Kaupverðið tók að sjálfsögðu mið af því.

Reikningsdæmið var einfalt, í upphafi var það mat ráðgjafa Vegagerðarinnar að nýsmíði myndi kosta 600 -700 milljónir króna. Á núvirði þýðir það að nýtt skip myndi kosta ríkissjóð 700 – 800 milljónir króna. Stálverð hefur hækkað og ásamt öðrum þáttum má færa fyrir því rök að líklega myndi nýr Sæfari kosta enn meira en þetta.

Kostnaður við kaupin og endurbæturnar á írsku ferjunni verða um 400 milljónir króna miðað við núverandi áætlanir. Vegna gengisþróunar, aukinna krafna sem gerðar eru til farþegaskipa og til að auka “þægindin eins og hægt er fyrir vegfarendur” hefur þessi kostnaður orðið meiri en upphaflega var áætlað.

Eigi að síður verður Grímseyjarferjan með þessu móti mun ódýrari lausn en að smíða nýja ferju. Það er umtalsverður akkur fyrir ríkissjóð. Endurbætt ferja uppfyllir þar að auki kröfur sem gerðar eru til slíkra skipa, mun koma að sömu notum og nýsmíði og bætir til muna aðstöðu Grímseyinga frá því sem nú er með Sæfara.