Fréttir
  • Vegaeftirlitsmenn að störfum

Umferðareftirlit Vegagerðarinnar - Að vinna vinnuna sína

4.6.2007

Það er enginn sérlega glaður þegar upp kemst um brot í umferðinni. Það þekkja eftirlitsmenn Umferðareftirlits Vegargerðarinnar mæta vel.

Flestir landsmenn gera sér samt grein fyrir því að eftirlitið er nauðsynlegt. Meginmarkmið þess eftirlits sem Vegagerðin annast vegna t.d. akstur- og hvíldartíma ökumanna er að auka umferðaröryggi, að bæta samkeppnisstöðu þeirra atvinnufyrirtækja sem nýta vegakerfið og tryggja samræmi vegna vinnulöggjafar þ.e.a.s. því sem snýr að ökumönnum.

Eftirlitsmenn Umferðareftirlitsins leggja metnað sinn í að gæta jafnræðis og misbeita ekki valdi sínu. Það er því ákaflega særandi fyrir menn sem eru einfaldlega að sinna vinnunni sinni að vera líkt við ofbeldismenn Þýskalands Hitlers eins og Sveinn Kjartansson fyrrverandi framkvæmdastjóri gerir í opnu bréfi til samgönguráðherra í Morgunblaðinu 1. júní sl. Þeir eiga allt annað skilið en þessi orð Sveins: "Mér er sagt að þessa ágætu eftirlitsmenn ráðuneytisins vanti ekkert nema svarta leðurfrakka og hatta til að slaga upp í að standast einni frægustu lögreglu Evrópu á síðustu öld snúning."

Eitt er að gagnrýna lög og reglugerðir, annað er að ásaka vinnandi fólk fyrir að stunda vinnuna sína, fyrir það eitt að fara eftir lögum, reglum og verklagsreglum sem yfirstjórn Vegagerðarinnar setur. Eftirlitsmenn Vegargerðarinnar munu hér eftir sem hingað til halda uppi umferðareftirliti af heiðarleika. Til þess eru þeir ráðnir.

Nánari upplýsingar um umferðareftirlit Vegagerðarinnar