Fréttir
  • Héðinsfjarðargöng

Sprengt á ný

Vinna hafin aftur við sprengingar Ólafsfjarðarmegin í Héðinsfjarðargöngum

31.5.2007

Vinna er hafin á ný við að sprengja Héðinsfjarðargöng frá Ólafsfirði en sú vinna hefur legið niðri síðustu vikur meðan beðið var eftir búnaði til að stöðva vatnsleka. Sá búnaður barst loks til landsins um síðustu helgi. Nú þegar hefur tekist að þétta bergið og sprengivinna er hafin að nýju. Meðan beðið var hefur verið unnið við lokastyrkingu bergisins í þeim hluta ganganna sem búið var að sprengja.

Í síðustu viku opnaðist einnig vatnsæð í göngunum Siglufjarðarmegin. Vatnslekinn var þó miklu minni en Ólafsfjarðarmegin. Bergið þar hefur einnig verið þétt og vatnslekinn stöðvaður. Sprengingar þeim megin töfðust lítið sem ekkert vegna þessa.

Nú lengjast því Héðinsfjarðargöng því bæði frá Ólafsfirði og Siglufirði en samanlögð lengd ganganna nú er um 2.915 metrar. Það er um 27,5% af heildarlengd ganganna.

Skoða vefsíður HéðinsfjarðargangaHéðinsfjarðargöng - kort

Nýlega var einnig skrifað undir samkomulag milli Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði og Einingar-Iðju á Akureyri annarsvegar og verktakans Metrostav hinsvegar vegna útsendra starfsmanna Metrostav sem vinna við gerð ganganna. Samkomulagið sem tekur til um 60 verkamanna tryggir það að fylgt er í öllum meginatriðum ákvæðum í kjarasamningum Starfsgreinasambandsins. Starfsmennirnir eru aðilar að sjúkrasjóðum stéttarfélaganna, tryggðir á Íslandi og greiða stéttafélagsgjöld hér á landi og eru auk þess aðilar að lifeyrissjóði félaganna.