Fréttir
  • Fundur með samgönguráðherra

Samgönguráðherra heimsækir Vegagerðina

30.5.2007

Það ætti flestum að vera ljóst að nýr samgönguráðherra Kristján L. Möller hefur mikinn áhuga á vegagerð enda var Vegagerðin fyrsta stofnun ráðuneytisns sem hann heimsótti í sínu nýja starfi. Þann 29. maí kom hann við í Borgartúni 7. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og aðrir úr yfirstjórn kynntu honum starfsemina.

Sem gamalreyndur samgöngunefndarmaður þekkir Kristján vel til gerðar samgönguáætlana og því var lögð áhersla á að kynna honum innviði Vegagerðarinnar og þau fjölmörgu verkefni sem fram fara innan Vegagerðarinnar, hvort heldur þau snúa að vegagerð, brúarsmíð, jarðgangagerð, ferjusiglingum, sérleyfisferðum, leigubifreiðum, umferðareftirliti, vetrarþjónustu, sumarþjónustu, rannsóknum eða gæðaeftirliti svo nokkuð sé nefnt.

Víst er að ráðherra var nokkru fróðari þegar hann fór af fundi Vegagerðarmanna en þegar hann kom.