Fréttir
  • Gjábakkavegur - Horft til vesturs í landi Miðfells

Gjábakkavegur samþykktur

12.5.2007

Umhverfisráðherra hefur staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar með einu skilyrði. Skipulagsstofnun hafði þann 24. maí í fyrra fallist á alla kosti sem Vegagerðin lagði fram vegna lagningar Gjábakkavegar á milli Laugarvatns og Þingvalla í Bláskógabyggð. Pétur M. Jónasson kærði úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra 26. júní 2006, það er að segja þann hluta sem snýr að leið 7.

Rök Péturs snúa meðal annars að því að með lagningu leiðar 7 verði til tvöfalt vegkerfi þar sem gamli vegurinn yrði notaður áfram auk þess sem lagningin standist ekki lög um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Jafnfram muni lagning vegarins auka köfnunarefnismengun vatnasviðsins. Pétur lagðist ekki gegn leið 1. Sjá má allar leiðirnar á meðfylgjandi korti.

Skipulagsstofnun hafnaði því í umsögn vegna kærunnar að ekki væri tekið tillit til laga í úrskurði stofnunarinnar eða köfnunarefnismengunar.

Bláskógabyggð segir að markmiðið með vegalagningu sé að byggja upp heilsársveg með 90 km hámarkshraða sem ekki sé hægt á núverandi vegstæði. Bláskógabyggð hafnar því einnig að vegkerfið verði tvöfalt þar sem gamli vegurinn sé skilgreindur sem reið- og gönguleið í skipulagi.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands tók undir mörg atriði sem Pétur benti á varðandi verndun Þingvallavatns, grunnvatns og yfirborðsvatns, og hvetur til þess að farið sé með gát.

Vegagerðin benti á í sinni umsögn að að umferðarþungi yrði ekki meiri með því að fara leið 3+7 í stað leiðar 1. Og benti einnig á að engin áform væru um að nota gamla veginn fyrir aðra umferð en gangandi og ríðandi. Þá telur Vegagerðin að leið 3+7 samræmist lögum um verndun Þingvallavatns enda verði þess gætt að vatni verði ekki spillt og að farið verði að einu og öllu að þeim skilyrðum sem sett eru. Þá banni lög um Þingvallavatn ekki vegagerð eða aðra uppbyggingu á svæðinu. Vegargerðin telur einnig í umsögn sinni að það verði jafnvel enn meiri köfnunarefnismengun á leið 1 en leið 3+7 þar sem síðarnefnda leiðin liggur um jafnar land.

Þá segir Umhverfisstofnun í sinni umsögn að ljóst sé að Íslendingum beri skylda til að gæta að lífríki Þingvallavatns sérstaklega í ljósi þess að Þingvellir eru á heimsminjaskrá UNESCO. En hinsvegar séu helstu ástæður köfnunarefnismengunar uppblástur, áburðarnotkun, skólp og það sem kallast “loftaðborin ákoma”. Stofnunin bendir á að nýrri tegundir bíla og hvarfakútar minnki mengun en aukin umferð og aukinn hraði auki hana. Rétt sé því að fylgjast vel með og láta náttúruna njóta vafans. Umhverfisstofnun tekur einnig undir með kærandanum Pétri að við hönnun vegarins á leið 7 sé horft framhjá hlutverki hans sem ferðamannavegar en einblínt á takmarkaðan ávinning af auknum hraða á nýrri leið.

Umhverfisráðherra felst ekki á að leið 7 brjóti í bága við 1., 3., og 4. grein laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess nr. 85/2005. Umhverfisráðherra felst hinsvegar á að mengun af völdum köfnunarefnis geti aukist í Þingvallavatni samhliða aukinni umferð. Því er það skilyrði sett að mengunin sé mæld áður en framkvæmdir hefjast og í fimm ár á eftir. Þetta geri Vegagerðin í samráði við Umhverfisstofnun. Þá felst ráðherra ekki á að um tvöfalt vegkerfi verði að ræða enda hafi komið skýrt fram hjá Bláskógabyggð að það standi ekki til. Ráðherra felst heldur ekki á rök um aukinn umferðaþunga enda hafi Vegargerðin bent á að það breyti engu í því sambandi hvort leið 1 eða leið 3+7 verði fyrir valinu. Auk þess geti Þingvallanefnd takmarkað umferð og hámarkshraða innan þjóðgarðsins. Um vegalagningu í gegnum Eldborgarhraun segir ráðherra að draga megi úr áhrifum á hraunið að því marki að þau teljist ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Lokaniðurstaðan er því sú að úrskurður Skipulagsstofnunar er staðfestur með því skilyrði að köfnunarefnismengum verði mæld áður en framkvæmdir hefjast og fylgst með henni í fimm ár.

Vegagerðin mun í ljósi þessa úrskurðar ráðherra hefja vinnu við hönnun vegar samkvæmt leið 3+7.

Umhverfisráðherra hvað upp úr um þetta þann 10 maí. Úrskurðinn má lesa hér.

Gjábakkavegur - kort með veglínum

Gjábakkavegur - veglínur