Fréttir
  • Reykjanesbraut

Umferðaröryggi í forgangi

25.4.2007

Alþjóðleg umferðaröryggisvika var haldin 23. - 29. apríl sl.

Vegagerðin sinnir fjölda verkefna sem stuðla eiga að auknu öryggi í umferðinni, ýmist ein og sér eða í samvinnu við aðra. Samkvæmt nýsamþykktri samgönguáætlun 2007-2010 er að finna umferðaröryggisáætlun þar sem sett er fram meðal annars áætlun um sérstakar aðgerðir til að fækka slysum og lækka kostnað samfélagsins af umferðarslysum.

Stór hluti þeirra verkefna er á vettvangi Vegagerðarinnar.

Eitt verkefnanna er eyðing svartbletta og er markmiðið að fækka þeim stöðum í vegakerfinu þar sem óvenjumörg slys verða. Á árinu 2007 er stefnt að aðgerðum á 66 stöðum en einkum er unnið að þessu verkefni á sumrin. Lagfæringar á svartblettum eru margskonar. Oft er um að ræða lagfæringar á vegamótum til að draga úr hættu á aftanákeyrslum. Stundum nægir að bæta merkingar og má nefna aðvörunarljós við einbreiðar brýr sem dæmi. Einnig má nefna ýmiskonar hraðahindrandi aðgerðir. Ætlunin er að verja 120 milljónun króna til verksins í ár og samtals um 450 milljónum á næstu fjórum árum.

Annað verkefni snýr að umhverfi veganna og aukinni notkun vegriða. Markmiðið er að draga úr afleiðingum slysa sem verða við útafakstur. Fyrst verður safnað upplýsingum um þá þjóðvegi sem tilheyra stofnvegakerfinu en það eru alls 4200 km. Stefnt er að því að það verði gert í sumar og að úttekt lokinni verði hægt að forgangsraða framkvæmdum. Það þarf að skrá hvar vegfláar eru of brattir, hvar stórgrýti, sem þyrfti að fjarlægja, er að finna meðfram vegum; skrá þarf skurði meðfram vegum og safna upplýsingum um hvar setja þurfi upp vegrið og einnig hvar þurfi að lengja vegrið til dæmis við brýr. Verkefnið er mikilvægt því að á árunum 2001 til 2005 létust 28 manns við útafakstur og 190 slösuðust alvarlega á þjóðvegunum í dreifbýli. Reiknað er með að fækka megi þessum slysum um fimmtung með því að bæta umhverfi vega verulega.

Þriðja verkefni Vegagerðarinnar á þessu sviði er fjölgun áningarstaða við þjóðvegi landsins. Útbúin eru sérstök hvíldarstæði þar sem ökumenn atvinnuökutækja geta lagt bílum sínum og lagt sig í leiðinni. Markmiðið er að draga úr slysum sem rekja má til þreytu ökumanna. Leitað verður eftir sjónarmiðum flutningamanna í gegnum samráðsvettvang Vegagerðarinnar og flutningaðila og að í lok árs liggi fyrir áætlun um staðsetningu hvíldarasvæðanna.Nú segjum við stopp

Þá má nefnda átak til að draga úr hraðakstri. Þetta verður meðal annars gert með auknu vegaeftirliti lögreglu og hraðamyndavélum. Settar verða upp 16 fastar myndavélar á þessu tímabili en þegar er búið að setja upp tvær vélar. Sex verða settar upp í ár.Leiðbeinandi hámarkshraði

Einnig verða sett upp fleiri skilti á þjóðvegum með upplýsingum um leiðbeinandi hraða en tilgangurinn með því er að fækka slysum á stöðum þar sem aðstæður krefjast lægri hraða en leyfilegs hámarkshraða einsog til dæmis í kröppum beygjum. Sett verða upp allt að 500 skilti á þjóðvegum og tengivegum.

Loks má nefna verkefni sem miðar að því að takmarka lausagöngu búfjár. Áhersla er lögð á að girða af vegi þar sem áhætta vegfarenda er mest vegna lausagöngu. Áætlað er að girða um 300 km á tímabilinu þar sem um þriðjungur slysa og óhappa verða af þessu tagi.


Umferðaröryggisvika