Fréttir
  • Reykjanesbraut

EuroRAP verkefnið

16.8.2006

Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður úr svokölluðu EuroRAP verkefni sem FÍB stendur að. EuroRAP er úttekt á umferðaröryggi vega og umhverfi þeirra og hefur þegar verið unnið að slíkum samræmdum úttektum í nokkrum Evrópuríkjum. Vegagerðin hefur fylgst með þróun EuroRAP í Evrópu í nokkur ár, gegnum systurstofnanir og ýmis samtök og nefndir sem starfsmenn taka þátt í. Í þeirri forkönnun sem þegar hefur verið unnin hérlendis lagði Vegagerðin til ýmis gögn og þekkingu varðandi vegakerfið og umferðaröryggismál, og stofnunin mun áfram styðja við framhald verkefnisins.

Mörg þeirra atriða sem bent er á til úrbóta á þeim vegum sem þegar hafa verið kannaðir eru á lista yfir umferðaröryggisaðgerðir sem Vegagerðin vinnur að þessi misserin og vill gjarnan setja aukinn kraft í. Þar má nefna sléttun næsta umhverfis veganna og uppfyllingu skurða, þar sem slíkt er hægt án þess að ógna afvötnun vegarins, fækkun tenginga inn á aðalvegi, lengingu og fjölgun vegriða og margt fleira. Vegakerfið er langt og fjölmargir staðir sem þarfnast úrbóta, og finnst mörgum að hægt gangi. Með tilkomu umferðaröryggisáætlunar og aukinnar áherslu á umferðaröryggi almennt er þó þess að vænta að unnt verði að vinna að fleiri verkefnum árlega en áður var. Ábendingar gegnum verkefni eins og EuroRAP eru velkomin viðbót við þær umferðaröryggisúttektir sem starfsmenn Vegagerðarinnar vinna sífellt að.

Ítarlegri umfjöllun um EuroRAP verkefnið má finna á vef Umferðarstofu.