Fréttir
  • CEDR fundur 2006

Fundur vegamálastjóra Evrópu haldinn á Íslandi

31.5.2006

Um síðastliðin áramót tók Vegagerðin við forsæti til eins árs í samtökum vegamálastjóra/aðstoðarvegamálastjóra í Evrópu, CEDR (Conference of European Directors of Roads).

Fyrri fundur vegamálastjóranna árið 2006 er haldinn í Reykjavík dagana 31. maí - 2. júní. Fyrsta daginn er undirbúningsfundur ráðgjafanefndar samtakanna sem í sitja forsetar síðustu 2ja ára ásamt núverandi og viðtakandi forsetum. 1. júní er svo fundur allra vegamálastjóra, þar sem farið verður yfir ýmis mál í innra starfi samtakanna, verkefni sem unnið er að verða kynnt og einnig verður greint frá breytingum í starfsemi eða uppbyggingu vegagerða í nokkrum Evrópuríkjum og skipst á skoðunum um málefni sem snerta vegi og umferð. Föstudaginn 2. júní verður svo farið í ferð um Suðurland þar sem fulltrúar fá að kynnast íslenskum vegum, nýtingu jarðhita á Nesjavöllum og ýmsu fleiru.

Um 30 manns taka þátt í fundinum, auk þess sem 14 makar eru með í för. Auk Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra taka Gunnar Gunnarsson og Hreinn Haraldsson þátt í fundinum.

Samtökin CEDR, með núverandi sniði, voru formlega stofnuð árið 2003, en fyrirrennari þeirra, WERD/DERD, (Western European Road Directors/Deputy European Road Directors) voru stofnuð 1988. Hlutverk samtakanna er að auka og bæta samskipti Evrópuríkja á sviði vegasamganga og flutninga á vegum með því að greiða fyrir flæði upplýsinga, reynslu og þekkingar á öllu því sem viðkemur vegum og því sem er þeim tengt, sérstaklega varðandi uppbyggingu og stjórnun vegakerfisins, umferð og flutninga, fjármögnun, lagaleg og fjárhagsleg atriði, umferðaröryggi, umhverfismál og rannsóknir á öllum þessum sviðum. Nú eru í samtökunum 24 Evrópuríki og aðsetur aðalskrifstofu er í París.