Fréttir
  • Net sjávarborðsmælistöðva. Stöðvarnar eru í eigu hafnanna en verktakar sjá um reksturinn.
  • Frumgerð færanlegrar radar mælistöðvar til þess að framkvæma nákvæmar samanburðarmælingar á sjávarborðshæð. Mælistöðin var notuð við kvarðanir á Suð-vesturlandi sumarið og haustið 2021.
  • Uppbygging sjávarborðsmælistöðva. Flestar varanlegar mælistöðvar eru búnar þrýstinemum til þess að mæla sjávarborðshæð.

Tryggja réttar mælingar sjávarborðsmæla

Eykur öryggi sjófarenda

26.8.2022

Hafnadeild og stoðdeild Vegagerðarinnar hafa farið af stað með verkefni sem á að tryggja réttar mælingar sjálfvirkra sjávarborðsmælistöðva í höfnum landsins. Mælarnir veita mikilvægar upplýsingar sem nýtast sjófarendum og koma að notum við hönnun hafna og sjóvarna.

Net sjálfvirkra sjávarborðsmælistöðva eru starfandi í mörgum höfnum umhverfis landið. Uppbygging netsins hófst á tíunda áratug tuttugustu aldar að frumkvæði Vegagerðarinnar (á þeim tíma Siglingastofnunar).

Tilgangur mælinganna er að auka öryggi sjófarenda og að safna áreiðanlegum upplýsingum um sjávarhæð sem nýtist í ýmsum útreikningum, til dæmis stjarnfræðilegra flóðastuðla, langtíma breytinga á meðalsjávarhæð og útgilda sjávarflóða. Gögnin eru töluvert notuð af Vegagerðinni við hönnun á höfnum og sjóvörnum.

Vegagerðin birtir mælda sjávarborðshæð (flóðhæð) á vefsíðunni sjolag.is.

Sjávarborðsmælarnir eru í eigu hafnanna og í umsjón verktaka en Vegagerðin hefur frá upphafi veitt þessum aðilum faglegan stuðning sem felst í gæðaeftirliti, það er að skoða hvort mælarnir séu að sýna réttar niðurstöður, hvort leynist mikið af villum og hvar þá helst.  

Hæðarkerfið sem sjávarborðsmælir vinnur í nefnist „kortanúll“ eða hafnarkerfi og miðast við lægsta stjarnfræðilega fjöruborð. Það er ólíkt hæðarkerfum á landi sem miðast við meðalsjávarhæð.

Ýmislegt getur orðið til þess að nákvæmni mælitækja breytist með tímanum, td. fellur á himnur, lífverur taka sér bólfestu utaná mælitækjum sem aflagast og bjagast með tímanum. Erfitt getur verið að koma auga á jafnvel talsvert mikið frávik í nákvæmni mælitækis sem eru úti í náttúrunni allan ársins hring, árum saman.

Á síðasta ári fór af stað átak hjá Vegagerðinni í að fylgjast reglubundið með mælunum með samanburðarmælingum og kvörðunum. Helsta áskorunin við að framkvæma nákvæmar samanburðarmælingar á sjávarhæð er að sjávarborðið er á stöðugri hreyfingu og aldrei alveg kyrrstætt. Því var brugðið á það ráð að smíða færanlega radar mælistöð til þess að mæla sjávarborðshæð með mikilli nákvæmni sem síðan er borin saman við álestra föstu stöðvarinnar. Verkfræðistofan Mannvit smíðaði stöðina eftir hugmyndum Vegagerðarinnar.

Hingað til hefur samanburðarmælirinn verið prófaður í höfnum í kringum höfuðborgarsvæðið og gefið ágæta raun. Til stendur að fara með mælinn í allar hafnir landsins þar sem fyrir er sjálfvirkur sjávarborðsmælir. Mælingin tekur um sólarhring og síðan eru niðurstöður bornar saman við staðbundna mælinn. Ef frávik kemur fram er brugðist við með því að leiðrétta föstu stöðina.

Þessi grein birtist í 5. tbl. Framkvæmdafrétta 2022.    Rafræna útgáfu má finna hér.      Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.