Fréttir
  • Markmið Vegagerðarinnar er að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild.
  • Kort yfir þær almenningssamgöngur sem Vegagerðin hefur umsjón með.
  • Vegagerðin býður út og hefur umsjón með samningum á 25 akstursleiðum almenningsvagna milli byggða á landsbyggðinni.
  • Vegagerðin býður út samninga við flugfélög um ríkisstyrkt innanlandsflug.
  • Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir áætlunarflug innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu.
  • Vegagerðin býður út og hefur umsjón með ferjum og ferjuleiðum. Ferjurnar á landinu eru fimm.

Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Flug, ferjur og almenningsvagnar

23.6.2022

Vegagerðin heldur utan um rekstur almenningssamgangna á landsbyggðinni með flugi, ferjum og almenningsvögnum. Vegagerðin vinnur að heildarendurskoðun á þessum almenningssamgöngum og greiningu á hvernig fólk nýtir sér þær en farþegum fækkaði verulega í faraldrinum. Starf Vegagerðarinnar á þessum vettvangi var kynnt á morgunverðarfundi sem haldinn var 31. mars á þessu ári.

„Vegagerðin heldur utan um stefnu stjórnvalda í almenningssamgöngum en markmiðið er að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og að boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið með bættu aðgengi,“ segir Bergþóra Kristinsdóttir framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar en á sviðinu starfar almenningssamgangnadeild sem stofnuð var 2019 þegar Vegagerðin tók við rekstri almenningsvagna á landsbyggðinni.

Eitt meginmarkmið Vegagerðarinnar er að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land. „Við viljum horfa heildstætt á vistvæna ferðamáta óháð sveitarfélagamörkum, efla almenningssamgöngur með vistvænum orkugjöfum og auka upplýsingagjöf til notenda,“ lýsir Bergþóra.

Ríkisstyrkt innanlandsflug

„Í tengslum við flugið þá bjóðum við út samninga við flugfélög um ríkisstyrkt innanlandsflug,“ upplýsir Bergþóra en þeir flugleggir sem styrktir eru af ríkinu eru milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði, milli Reykjavíkur og Gjögurs, Reykjavíkur og Bíldudals, Akureyrar og Grímseyjar og síðan Akureyrar og Vopnafjarðar/Þórshafnar. Flugfélagið Ernir er rekstraraðili á flugi til Hafnar en Norlandair sér um rekstur á öðrum flugleiðum.

Nokkuð stöðugur farþegafjöldi hefur verið á þessum leiðum í gegnum tíðina þó Covid-19 hafi vitanlega sett strik í reikninginn árið 2020 þegar farþegum fækkaði um 60% að meðaltali miðað við árin á undan. „Árið 2021 varð hins vegar mikill bati og er farþegafjöldinn kominn í um 90% á þessum flugleiðum miðað við það sem var fyrir Covid-19,“ segir Bergþóra og bætir við að flestir fljúgi á Höfn, næstflestir á Bíldudal en fæstir farþegar fljúgi á Gjögur.

Vonir standa til að farþegafjöldi muni aukast nokkuð á þessum leiðum með tilkomu Loftbrúar sem niðurgreiðir flug fyrir þá sem búa langt frá höfuðborgarsvæðinu. „Loftbrú hefur verið vel tekið. Fyrsta rekstrarárið, frá september til desember 2020 voru niðurgreiddir rúmir sjö þúsund flugleggir. Árið 2021, fyrsta heila almanaksárið voru niðurgreiddir tæpir 58 þúsund flugleggir. Það sem af er ári, frá janúar til mars hafa verið niðurgreiddir rúmlega 25 þúsund flugleggir,“ lýsir Bergþóra.

Fimm ferjur

Vegagerðin býður út og hefur umsjón með ferjum og ferjuleiðum. Ferjurnar á landinu eru fimm; Vestmannaeyjaferjan Herjólfur sem rekin er af Herjólfi ohf., Breiðafjarðarferjan Baldur sem Sæferðir hf. sjá um, Grímseyjarferjan Sæfari sem Samskip hf. reka, Hríseyjarferjan Sævar sem Andey ehf. hefur umsjón með og loks Mjóafjarðarferjan Björgvin sem er í rekstri Björgvins ehf.

Ríkið á þrjár af þessum ferjum, Herjólf, Sæfara og Sævar. 

Ferjufarþegum fækkaði mikið árið 2020, þó ekki jafn mikið og í fluginu enda voru innlendir ferðamenn duglegir að nýta ferjurnar sumarið 2020. Farþegar eru flestir yfir sumartímann í öllum ferjum nema Björgvini, en hann siglir ekki á sumrin heldur er notaður þegar vegurinn til Mjóafjarðar lokast á veturna.

Almenningsvagnar á landsbyggðinni

Vegagerðin býður út og hefur umsjón með samningum á 25 akstursleiðum almenningsvagna milli byggða á landsbyggðinni. Vegagerðin sinnir bæði beinum rekstri en sér einnig um að úthluta styrkjum til sveitarfélaga sem sjá um rekstur nokkurra akstursleiða.

Mikil fækkun hefur verið í hópi notenda landsamgangna síðustu tíu árin og algjört fall hefur orðið í farþegafjölda síðustu tvö árin. Þær leiðir þar sem nýtnin er mest eru leiðir 51 milli Reykjavíkur og Hafnar, leið 52 milli Reykjavíkur og Landeyjahafnar, leið 55 milli Reykjavíkur og Keflavíkur og leið 57 milli Reykjavíkur og Akureyri. Bergþóra segir mikla vinnu fram undan við að fjölga farþegum í almenningsvögnum.

Jákvæð breyting varð á dögunum þegar aðgengi fyrir hjólastóla var bætt með nýjum vögnum á leið 51 til Selfoss og 57 til Akureyrar. „Þetta hefur ekki verið í boði hingað til en sett var inn krafa um þetta í útboði,“ segir Bergþóra ánægð en enn sem komið er þetta pöntunarþjónusta því fjöldi vagna er takmarkaður.

Framtíðin – Hvert stefnum við?

„Markmið okkar eru fjölmörg og metnaðarfull. Við viljum að almenningssamgöngur á Íslandi myndi heildstætt og samþætt leiðarkerfi sem er bæði umhverfisvænt og hagkvæmt. Og við viljum þjóna íbúum og stuðla að jöfnun á aðgengi að almenningssamgöngum,“ segir Halldór Jörgensson forstöðumaður almenningssamgangna Vegagerðarinnar

Á morgunverðarfundinum fór hann yfir hver stefna Vegagerðarinnar er til framtíðar í almenningssamgöngum á landsbyggðinni og hvaða verkefni þarf að ráðast í til að ná markmiðunum hér að ofan.

„Í fyrsta lagi þurfum við að endurnýja leiðakerfið og búa til örugga tengingu á milli ferðakosta með ferjum, flugi og almenningsvögnum. Þetta verkefni er stöðugt í gangi og okkur þykir mikilvægt að skipuleggja leiðir með þarfir íbúa og góða nýtingu fjármagns að leiðarljósi,“ segir Halldór og áréttir að bæði þurfi að huga að vinnusóknartengingu og félagslegri tengingu. „Vegagerðin vill vinna náið með fólkinu sem býr úti á landi til að finna bestu leiðirnar og tengingarnar á samþættingu við aðra vagna á borð við innanbæjarvagna og skólabíla sem aka innan sveitarfélaga.“

Í öðru lagi þarf að tryggja að ferðamátinn sé samkeppnishæfur. „Fargjöld þarf að samræma og mega ekki vera of dýr og við vinnum nú að því að ákvarða hvernig við viljum verðleggja þjónustuna.“

Í þriðja lagi er stefnt að orkuskiptum í takt við loftslagsmarkmið. „Þessu ætlum við að ná með því að setja í útboð kröfur eftir því sem hægt er út frá því fjármagni sem við höfum úr að spila.“

Í fjórða lagi þarf að gera biðstöðvar utan þéttbýlis betri m.a. til að tryggja öryggi farþega á biðstöðvum, flugstöðvum og ferjuhöfnum. Aðgengi að þjónustu þarf að vera eins og best verður á kosið, þar með talið fyrir fatlaða og hreyfihamlaða. „Það er mikilvægt að biðstöðvar séu rétt hannaðar og við erum komin af stað með þetta verkefni.“

Í fimmta lagi þarf að byggja upp samgöngumiðstöðvar og gera fýsileikakönnun á uppbyggingu þeirra.

Í sjötta lagi þarf að vera til staðar gagnvirk þjónustuveita sem veitir betra aðgengi að upplýsingum um leiðir milli áfangastaða og sem auðveldar farmiðakaup hvort sem ferðast er með strætó eða ferjum.

Í sjöunda og síðasta lagi þarf að greina möguleika á samgöngu- og deiliþjónustu og hvernig megi aðlaga lagaumhverfið að þessum þáttum. Að sögn Halldórs er nú unnið að þessu.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Framkvæmdafrétta 2022.   Rafræna útgáfu má finna hér.     Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.