Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • heildarumferðin
  • Umferðin eftir vikudögum

Mjög aukin umferð á höfuðborgarsvæðinu í apríl

metin falla hvert á fætur öðru

6.5.2016

Rétt einsog á Hringveginum þá eykst umferðin á höfuðborgarsvæðinu gríðarlega mikið. Í apríl ár var umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar nærri 13 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Aldrei hafa fleiri bílar farið um mælisniðin þrjú. Frá áramótum hefur umferðin aukist um ríflega sjö prósent og það stefnir í að umferðin í ár á höfuðborgarsvæðinu verði 4,6 prósentum meiri en í fyrra.

Milli mánaða 2015 og 2016
Umferð jókst um 12,9% milli aprílmánaða, sem er mesta aukning milli ára í sömu mánuðum, eftir hrun.  Leita þarf aftur til ársins 2007 til að finna viðlíka aukningu milli ára í sömu mánuðum.  Metið milli ágústmánaða 2006 og 2007 upp á 13,2% stendur því enn. 

Umferðin eykst svipað í öllum mælisniðum, sem er athyglisvert, eða frá 12,4 - 13,2%.  Yfirleitt munar mun meiru á aukningu milli mælisniða innan sama mánaðar.  Metin halda því áfram að falla, nú hefur aldrei áður mælst jafn mikil umferð og í nýliðnum apríl.  Umferðin fór í fyrsta sinn yfir 150 þús. bíla að meðaltali á hverjum degi yfir mælisniðin þrjú. 

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016
Umferð hefur nú aukist um 7,1% frá áramótum borðið saman við sama tímabil á síðasta ári. Svona mikil aukning miðað við árstíma hefur ekki áður mælst frá því að þessi samantekt hófst árið 2005. Umferðin hefur heldur aldrei verið eins mikil eins og nú, miðað við árstíma.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin hefur aukist alla vikudaga, en mest hefur umferðin aukist á sunnudögum eða um 9,4%. Minnst eykst umferðin föstudögum eða um 4,8%.   Svo virðist sem umferðarmynstrið sé að breytast því áður voru föstudagar umferðarmestir en nú hafa miðvikudagar tekið við því hlutverki. Hins vegar er ekki breyting á því hvenær minnst er ekið á höfuðborgarsvæðinu en það er á sunnudögum.

Horfur út árið 2016
Eftir því sem lengra líður á árið hefur spáin um væntanlega umferðaukningunni vaxið.  Nú er gert ráð fyrir að umferðin geti vaxið um 4,6% miðað við árið 2015. Þessi niðurstaða er ekki svo ótrúleg ef skoðaðar eru gildandi hagvaxtarspár Seðlabanka Íslands (SBÍ) og fylgnin við umferðina. Gildandi hagvaxtarspá SBÍ gerir ráð fyrir 4,2% hagvexti nú í ár, þegar þessi frétt er skrifuð en væntanleg er ný spá frá SBÍ innan skamms.

Talnaefni