Fréttir
  • Örnólfsdalsárbrú
  • Hreinn Haraldsson vegmálastjóri tekur við viðurkenningunni úr hendi Krisínar Huld Sigurðardóttur forstöðumanni Minjastofnunar Íslands
  • Kristín Huld Sigurðardóttir, Hreinn Haraldsson, Jakob Hálfdanarson og Baldur Þór Þorvaldsson
  • Hvítá í Borgarfirði
  • Jökulsá hjá Hákonarstöðum
  • Bláskeggsárbrú endurvígsla
  • Fnjóská hjá Vaglaskógi
  • Botnsá í Hvalfirði
  • Bakkaá á Tjörnesi

Vegagerðin hlýtur viðurkenningu Minjastofnunar 2015

fyrsta sinn sem þessi viðurkenning er veitt

4.12.2015

Vegagerðin varð fyrst til að hljóta nýja viðurkenningu Minjastofnunar 2015 fyrir mikilvægt brauðryðjendastarfastarf í þágu minjaverndar. Vegagerðin hefur lagt rækt við að skrá og varðveita minjar t.d. með endurbyggingu sögulegra brúa sem viðurkenningin nú er veitt fyrir.  


Fréttatilkynning Minjastofnunar af þessu tilefni:

Minjastofnun Íslands hefur ákveðið að veita Vegagerðinni sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning er veitt eftir að Minjastofnun tók til starfa í ársbyrjun 2013. Áformað er að veita slíka viðurkenningu á hverju ári framvegis í tengslum við ársfund stofnunarinnar.

Viðurkenningin er veitt Vegagerðinni fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum. Vegagerðin hefur lengi lagt sérstaka rækt við að skrá og varðveita minjar um eigin starfsemi og sögu vegagerðar á Íslandi. Innan hennar vébanda starfar Vegminjasafn sem hefur það hlutverk að varðveita og miðla sögu vegagerðar á Íslandi. Safngripir á þess vegum, m.a. vélar, áhöld, tjöld og vinnuskúrar, eru varðveittir sem deild innan Samgöngusafnsins í Skógum. Auk Vegminjasafnsins hefur Vegagerðin látið gera við og endurbyggja sextán söguleg brúarmannvirki til varðveislu á sínum upprunastað.

Fá tæknileg mannvirki hafa haft meiri þýðingu fyrir íslenskt samfélag en fyrstu brýrnar sem reistar voru yfir stórfljót landsins í lok 19. aldar og á fyrstu áratugum þeirrar 20. Því er það mikils virði að tekist hefur að bjarga mikilvægum dæmum um þróunarsögu íslenskra brúarmannvirka, m.a. einu stálhengibrúnni sem eftir er frá 19. öld og fyrstu steinsteypubrúnni, sem reist var árið 1907. Sumar brýrnar lét Vegagerðin endursmíða að miklu leyti en í öðrum tilvikum voru einstakir hlutar endurnýjaðir. Markmið með endursmíðinni er tvíþætt: Að tryggja varðveislu merkra sögulegra mannvirkja og tryggja þeim nýja og verðuga notkun í tengslum við göngustíga og reiðleiðir. Í sumum tilvikum gegna brýrnar hlutverki í tengslum við áningastaði ferðamanna, t.d. við Skjálfandafljót hjá Fosshóli, þar sem gangan yfir gömlu stálgrindarbrúna er mikilvægur hluti af upplifun ferðafólks af gljúfrinu neðan við Goðafoss. Gamlar brýr geta einnig haft varðveislugildi vegna byggingarlistar ekki síður en tækni- og samgöngusögu. Þannig er steinsteypubogabrúin yfir Fnjóská við Vaglaskóg frá sjónarhóli arkitektúrs eitt formfegursta mannvirki sem reist var hér á landi á 20. öld. 


BRÚARMANNVIRKI SEM VEGAGERÐIN HEFUR LÁTIÐ GERA VIÐ EÐA ENDURBYGGJA

Hvítárbrú og Jökulsárbrú hjá Hákonarstöðum eru enn opnar fyrir bílaumferð.

Aðrar brýr á listanum eru í notkun fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiða- og hestafólk.

Örnólfsdalsá hjá Norðtungu, 33 m löng hengibrú, byggð 1899.

Hönnun : Windfeld Hansen / Sigurður Thoroddsen. Eina varðveitta brúin frá 19. öld.

Bláskeggsá hjá Þyrli í Hvalfirði, 7 m löng steypt bogabrú, byggð 1907,  í notkun til 1951. 

Elsta steinsteypubogabrú landsins. Hönnun : Jón Þorláksson. Endurgerð brú vígð 2010.

Fnjóská hjá Vaglaskógi, 55 m löng steypt bogabrú, byggð 1908. 

Hönnun : Christiani & Nielsen. Lengsti steinbogi á Norðurlöndum um langt skeið.

Jökulsá á Brú, hjá Hákonarstöðum á Jökuldal, 27,4 m löng grindarbitabrú + landhaf, byggð

1908. Gerð upp 2008.  Stálvirkið var framleitt í Ameríku.

Haffjarðará, 30 m löng og 2,80 m breið steypt bogabrú, byggð 1912.

Í notkun til 1965.  Endurgerð 2011.

Kaldakvísl í Mosfellsbæ, 19,3 m löng steypt bogabrú, byggð 1912.

Vesturós Héraðsvatna, 113 m löng steypt bitabrú í 7 höfum, byggð 1925.  Reið- og göngubrú.

Bakkaá á Tjörnesi, 5,5 m löng steypt bogabrú, byggð 1927.

Hvítá hjá Ferjukoti, Borgarfirði, 106 m löng steypt bogabrú með tveimur bogum, byggð 1928.

Hönnun : Árni Pálsson.

Ormsá í Hrútafirði, 22,3 m löng bogabrú / 1929.  Í notkun til 1983.  Endurgerð 2010.

Skjálfandafljót hjá Fosshóli, 71 m löng stálgrindabrú, byggð 1930.  Var í notkun til 1972. 

Kom í stað eldri brúar frá 1883.

Botnsá í Hvalfirði, 22 m löng steypt bitabrú, byggð 1932, lagfærð 1985. 

Geithúsaá í Reyðarfirði, 18 m löng, bitabrú, byggð 1935 á stöplum timburbrúar frá 1905.

Tunguá í Skutulsfirði, 10 m löng steypt bitabrú byggð 1940. 

Hítará, gamlar undirstöður frá 1905.  Ný yfirbygging 2008. 

Jökulsá á Dal hjá Fossvöllum, 26 m steypt bogabrú, byggð 1931.  Í notkun til 1994.