Fréttir
  • Kolgrafafjörður brúaropið
  • Kolgrafafjörður kort mælistaðir
  • Kolgrafafjörður unnið við rannsóknir
  • Kolgrafafjörður mælitæki í innrifirði
  • Kolgrafafjörður skýrsla

Vegfylling í Kolgrafafirði ekki ástæða síldardauða

staðsetning brúarops gæti hafa áhrif á súrefnisstyrkinn við síldagöngur

21.10.2015

Súrefnisskortur olli síldardauðanum í Kolgrafafirði veturinn 2012-2013. Umhverfisaðstæður ráða mestu um súrefnisstyrkinn í firðinum, bæði innan og utan fyllingar. Umhverfisaðstæður voru slæmar á þessum tíma.  Þær hafa þó verið enn verri nokkrum sinnum undanfarin ár. Fari saman slæmar umhverfisaðstæður og nægjanlegt magn síldar í firðinum fellur súrefnisstyrkurinn hratt og síldin drepst. Þetta er niðurstaða rannsóknar Verkfræðistofunnar Vatnaskila sem hún vann fyrir Vegagerðina


Úrdráttur:

Umfangsmikill síldardauði átti sér stað í Kolgrafafirði veturinn 2012-2013. Síldin drapst innan vegfyllingar Snæfellsnesvegar við Hjarðarbólsodda sem liggur við þröskuld innri fjarðar, og er talið að síldardauðinn hafi orsakast af súrefnisskorti. Í kjölfar þessara atburða kom Vegagerðin á fót rannsóknarverkefni til að varpa frekara ljósi á þá. Markmiðið var að greina umhverfisaðstæður í firðinum sem gætu haft áhrif á súrefnisbúskap fjarðarins þegar hann er undir miklu álagi vegna súrefnisupptöku síldar. Jafnframt, ef slíkar aðstæður skapast, að meta hvort tilkoma vegfyllingarinnar hefði áhrif á eða leiddi til þessara aðstæðna.


Gerð er ítarleg grein fyrir vettvangsmælingum sem voru framkvæmdar í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, viðbótar gagnasöfnun, og gerð reiknilíkana sem notuð voru til stuðnings greiningar mæligagna, og til mats á áhrifum umhverfisaðstæðna og vegfyllingarinnar á súrefnisbúskap fjarðarins.

Helstu niðurstöður gefa til kynna að eftir vesturströnd Kolgrafafjarðar utan vegfyllingar sveiflast súrefnisstyrkur að mestu í takti við breytingar í súrefnisstyrk innan vegfyllingar þegar súrefnisupptaka er mikil í firðinum og endurnýjun súrefnis er lítil um yfirborð sjávar og með sjávarföllum. Þannig getur súrefnisstyrkur fallið á nokkuð stóru svæði í vesturhluta ytri fjarðar samhliða falli í innri firði, og samspil þessara svæða með vatnsskiptum um þröskuld innri fjarðar getur leitt til stigminnkaðs súrefnisstyrks á báðum stöðum. 

Helstu þættir sem hafa áhrif á þetta samband eru vindstyrkur og varandi lágvindstímabila, og sveifla sjávarfalla með jafnan lægri styrk súrefnis þegar hún er lág. Mesta flóðhæð á stórstraumi ræður einnig miklu um hversu mikið súrefnishagur vænkast á þessu vestursvæði ytri fjarðar, og um leið í innri firði. Vegfyllingin hefur engin áhrif á að súrefnisstyrkur í vesturhluta ytri fjarðar sveiflist í takti við breytingar í innrifirði og að samspil svæðanna geti leitt til stigminnkaðs súrefnisstyrks á báðum stöðum, öll einkenni eru þau sömu með og án vegfyllingar. 

Hins vegar getur staðsetning vatnsops við þröskuld innri fjarðar ráðið nokkru um hversu mikið súrefnisstyrkur fellur í innri firði við síldargöngur. Þannig veldur staðsetning brúarops vegfyllingarinnar vestarlega í firðinum virkari vatnsskiptum við vesturhluta ytri fjarðar. Súrefnisstyrkur getur þannig fallið aðeins meira að meðaltali innan vegfyllingar með vegfyllingu heldur en án hennar þegar síld gengur í miklum mæli í fjörðinn, vindhraði er lágur og sveifluhæð sjávarfalla er lág. Mismunurinn er þó stærðargráðu minni en fall súrefnisstyrks verður vegna síldargangnanna. 

Óvíst er hvort aðeins hærri meðalsúrefnisstyrkur í innri firði, án vegfyllingarinnar, hefði varnað því að 10% þeirrar síldar sem var á ferðinni drapst í desember 2012, þar sem tímasetning á miklum síldargöngum samfara óhentugum umhverfisaðstæðum virðist ráða mestu um hvort að til súrefnishnignunar geti komið í Kolgrafafirði. 

Magn síldar sem er á ferðinni ræður svo því hversu lágt súrefnisstyrkur fellur og hvort síldin hafi þá nægjanlegt súrefni og rými til að varna afföllum. 

Niðurstöður verkefnisins benda til þess að mun verri umhverfisaðstæður hafi skapast undanfarin ár en raunin varð í desember 2012. Má því teljast mildi að síldargöngur í jafn miklum mæli hafi ekki farið saman við svo óhagstæðar umhverfisaðstæður í Kolgrafafirði. Tilkoma vegfyllingarinnar breytir engu um það.