Fréttir
  • Viðhorf til Vegagerðarinnar
  • Þjóðvegir góðir eða slæmir
  • Viðhald vega í þéttbýli
  • Fagmennska hjá Vegagerðinni

Færri jákvæðir gagnvart Vegagerðinni

samkvæmt nýrri könnun  Maskínu um þjóðvegi landsins

30.9.2015

Í sumarkönnun Maskínu fyrir Vegagerðina um þjóðvegi landsins kemur í ljós að færri eru jákvæðir í garð Vegagerðarinnar en í nýliðnum könnunum. Sama á við um marga aðra þætti sem spurt er um. Leiða má líkum að því að minna viðhald og erfiður vetur þar sem vegir komu illa undan vetri skýri þetta að einhverju leyti.


Frá sömu sumarkönnun fyrir árið 2014 er það einungis ánægja með símsvörun Vegagerðarinnar sem eykst. Aðrir þættir dala eilítið og nokkuð, mismikið. Mest fækkar þeim sem telja að Vegagerðin standi sig vel í viðhaldi vega í þéttbýli. En þar spilar væntanlega inn í að vegir á höfuðborgarsvæðinu komu mjög illa undan vetri, fyrst og fremst vegna mikilla umskipta í veðurfari s.l. vor, bæði þeir vegir sem Vegagerðin sinnir svo sem og þeir sem sveitarfélögin sjá um. Undan því verður þó heldur ekki litið að viðhald hefur ekki verið með þeim hætti sem Vegagerðin vildi vegna minni fjárveitinga undanfarin ár. Fé var þó bætt í þennan málaflokk nú í ár. 

Þeir eru færri sem finnst að þjóðvegir séu góðir á Íslandi en einnig eru þeir nú færri sem telja að Vegagerðin standi sig vel í viðhaldi vega í dreifbýli en þeim fækkar þó mun minna þeim sem hafa áhyggjur af viðhaldinu í þéttbýlinu.

Sé litið til könnunarinnar sem gerð var í vetur hefur þeim þó fjölgað sem telja sig örugga á vegunum, sýnileiki Vegagerðarinnar eykst, fleirum finnst fagmennska mikil hjá Vegagerrðinni og ánægja eykst með símaþjónustuna svo dæmi séu tekin.