Fréttir
  • Á slysstað, brúin yfir Vatndalsá
  • Á slysstað, brúin yfir Vatndalsá
  • Á slysstað, brúin yfir Vatndalsá
  • Á slysstað, brúin yfir Vatndalsá
  • Á slysstað, brúin yfir Vatndalsá
  • Hugmynd að legu bráðbirgðabrúar

Bráðabirgðabrú verður byggð yfir Vatnsdalsá

stefnt er að því að hægt verði að opna fyrir 20. september

2.9.2015

Ákveðið hefur verið að byggja bráðabirgðabrú yfir Vatnsdalsá við Grímstungu og stefnt er að því að hægt verði að koma umferð á þá brú fyrir 20. september n.k. Framkvæmdir hefjast í vikunni en efni í brúna er til á öryggislager Vegagerðarinnar. 

Unnið hefur verið að því að hreinsa gömlu brúna eftir að hún hrundi undan malarflutningabíl með tengivagni þann 18. ágúst. Verið var að flytja efni í vegagerð þegar óhappið átti sér stað.

Bráðabirgðabrúin verður staðsett um 30 m neðan núverandi vegar (sjá á yfirlitsmynd). Byggð verður 45 m löng stálbitabrú með timburgólfi í þremur höfum. Akbrautarbreidd verður 3,6 m og heildarbreidd 4,0 m. Miðhaf brúarinnar verður 22 m og verða undirstöður nálægt árbökkum beggja vegna og verður því lítið hreyft við ánni sjálfri. 


Undirstöður í landi verða í fyllingu báðum megin. Bráðabirgðabrúin verður byggð fyrir fullt umferðarálag. Til að tengja brúna verður lagður um 350 m löng vegtenging. 

Unnið er að kynningu og öflun leyfa  til verksins hjá hagsmunaaðilum og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í þessari viku. Efni í bráðabirgðabrúna er til á öryggislager Vegagerðarinnar og efni í bráðabirgðaveg verður tekið úr opnum skipulögðum námum vestan og austan Vatnsdalsár. 

Stefnt er að því að unnt verði að opna bráðabirgðaleið yfir Vatnsdalsá fyrir 20. september.