Fréttir
  • Skriða á Siglufjarðarvegi 27. ágúst 2015
  • Skriða á Siglufjarðarvegi 27. ágúst 2015
  • Skriða á Siglufjarðarvegi 27. ágúst 2015
  • Grjót á Siglufjarðarvegi 27. ágúst 2015
  • Skriða á Siglufjarðarvegi 27. ágúst 2015

Skriður loka Siglufjarðarvegi og Strandavegi

Ekki verður hægt að opna fyrr en á morgun vegna úrfellis

28.8.2015

Fjöldi aurskriða hefur lokað Siglufjarðarvegi og Strandavegi sem eru báðir ófærir.  Strandavegur er einnig í sundur á nokkrum stöðum. Ausandi rigning er á báðum svæðum ennþá og reiknað með að hún haldi áfram til morguns rigningin. Ekki verður hægt að vinna  við að ryðja vegina fyrr en sjatnar í og rigningunni linnir. Staðan verður metin í fyrramálið.


Þegar þetta er skrifað um hádegisbil á föstudegi er ekkert lát á úrkomunni og henni spáð áframhaldandi næsta sólarhringinn. 

Á Siglufjarðarveg hefur fallið fjöldi aurskriða, misstórar en margar þeirra hafa farið yfir veginn. Frá Siglufirði og að göngum hafa fallið þrjú flóð og er eitt sýnu stærst eða um 2000 m3 og reikna má með að þykktin sé um 1,5 m. Vestan við Strákagöng hafa fallið mörg flóð misstór og í Mánárskriðum eru nokkrir steinar inni á vegi. Við Herkonugil féllu tvö flóð ekki mjög stór. Við Sauðanes féll stórt flóð sem skemmdi heimreiðin að Sauðanesi, síðan féllu flóð miðja vegu milli Sauðanes og Strákaganga töluvert stór. 

Í gærkveldi (fimmtudag) var gífurleg úrkoma á svæðinu og féllu skriðurnar trúlega um miðnættið. Ennþá er töluverð úrkoma og upplýsti veðurstofan að reikna mætti með mikilli úrkomu alveg til hádegis á morgun. Staðan verður metin í fyrramálið og ekkert verður átt við hreinsun fyrr en þá. Myndirnar sem fylgja fréttinni er af Sigufjarðarvegi.

Fært er á Siglufjörð um Ólafsfjörð og Héðinsfjarðargöng.

Á Ströndum er svipaða sögu að segja en ekki hafa menn komist að til að meta allt sem hefur fallið á Strandaveginn eða vatnavexti sem hafa tekið veginn í sundur. Hann er í sundur í Kaldbakshlíð og á fleiri stöðum að því er menn komast næst. Fjöldi skriða hefur fallið í Kjörvogshlíðinni á milli Djúpavíkur og Gjögurs. Og einnig á veginum yfir Eyrarháls inn að Ingólfsfirði sem er þá einnig er ófær. Skriður hafa fallið við Grjótavík, Hvalvík og í Urðunum á milli Trékyllisvíkur og Norðurfjarðar.

Sama staða er upp með að það er enn mikil rigning á svæðinu og ómögulegt að vita hvenær hreinsun getur hafist og hægt verður að laga vegina sem hafa farið í sundur. Bíða verður eftir að það sjatni og rigningin minnki. Þó er ljóst að það er töluverð vinna sem þarf að leggja í til að opna veginn á ný.