Fréttir
  • Dynjandisheiði vor 2015

Mikill halli á vetrarþjónustunni en um mitt ár er Vegagerðin í heild innan fjárheimilda

Snjóþungir vetur valda framúrkeyrslu

26.8.2015

Nokkuð hefur verið um það rætt í fjölmiðlum undanfarið að Vegagerðin hafi farið fram úr fjárheimildum á fyrstu 6 mánuðum ársins og hafa sumir nefnt mikinn viðhaldskostnað í því sambandi.

Ekki er það alls kostar rétt, þar sem aðal ástæða framúrkeyrslu Vegagerðarinnar er mikill kostnaður við vetrarþjónustu undanfarin ár.  Útgjaldaliðir eins og viðhald og nýframkvæmdir stóðu aftur á móti vel eftir fyrstu 6 mánuði þessa árs eins og stofnunin í heild. 

Vegagerðin getur haft stjórn á flestum útgjaldaliðum sínum, en því miður gildir það ekki um vetrarþjónustuna nema að litlu leyti.  Þar ræður veðurfarið ferðinni, ásamt þeim reglum sem ákveðnar hafa verið um umfang þjónustunnar.

Hallinn á vetrarþjónustunni er engin ný bóla.  Allt frá árinu 2010 hafa fjárveitingar til vetrarþjónustu verið miðaðar við snjóléttan vetur.  Veturnir, sem komið hafa síðan, hafa hins vegar verið hver öðrum snjóþyngri og var sá síðasti einhver sá versti og kostnaðarsamasti í manna minnum. 

Vetrarþjónustan hefur vegna þessa þurft að fá viðbótarfjárveitingar á fjáraukalögum árlega árin 2012, 2013 og 2014 og þrátt fyrir það var skuld vetrarþjónustunnar 1.142 m.kr. í árslok 2014. Sú skuld ásamt miklum kostnaði við þjónustuna eftir áramót skýrir mestan hluta þeirra neikvæðu fjárhagsstöðu sem hefur verið til umræðu.