Fréttir
  • Aukning umferðar milli ára í júlí eftir landssvæðum
  • Meðalumferð vikudaga í júlí 2015

Metaregn í umferð um Hringveginn

5.8.2015

Nýtt met var slegið í aukningu umferðar í nýliðnum júlí borinn saman við sama mánuð á síðasta ári en aukningin var 8,9%.  Aldrei hefur umferð aukist hlutallslega svo mikið á milli júlí mánaða og aldrei hafa fleiri bílar ekið um Hringveginn í nokkrum mánuði en í nýliðnum júlí. Samtals óku daglega um 92 þúsund ökutæki yfir 16 lykil teljarasnið Vegagerðarinnar, á Hringvegi. Nú stefnir umferðin, á Hringvegi, árið 2015 fari vel upp fyrir fyrra met frá árinu 2007.


Milli mánaða 2014 og 2015
Þrátt fyrir lélega tíð á stórum hluta landsins í júlí varð gríðarleg aukning í umferð nýliðnum júlí m.v. sama mánuð á síðasta ári, á Hringvegi.  Þessi mikla aukning er að stærstum hluta borin uppi af mikilli aukningu um Suðurlandi, við höfuðborgarsvæðið og á Vesturlandi.  En á þessum svæðum jókst umferðin frá 10,2% - 12,4%. Þar sem umferðin er að jafnaði mest um þessi svæði vegur hvert prósentustig á þeim mjög þungt í samanlagðri aukningu lykilteljara.Umferð um Norður- og Austurlandi í júlí jókst lítið eða um 0,2% og 1,7%. Þessa litlu aukningu má sennilega rekja til lélegs tíðarfars í nýliðnum júlí á þessum svæðum.Þegar öll þessi aukning er lögð saman og vegin verður niðurstaðan 8,9% aukning í júlí m.v. sama mánuð á síðasta ári, sem er nýtt met í prósentum talið milli júlí mánaða.  Í bílum talið hefur umferðin aldrei verið meiri í júlí mánuði og þ.a.l. er þetta einnig met í einstökum mánuði. Að meðaltali fóru um 92 þús. ökutæki um teljarasniðin 16 hvern einasta dag í júlí. Fyrra metið var frá árinu 2009 en þá fóru tæp 85 þús. ökutæki daglega um teljarasniðin.

Frá áramótum milli áranna 2014 og 2015
Þrátt fyrir mikla aukningu í umferð, á milli júlí mánaða, hefur umferðin frá áramótum ,,aðeins" aukist um 3,5% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þessi aukning verður þó að teljast talsverð.   Mest hefur umferðin aukist um Austurland eða 8,0% en minnst um teljarasnið við höfuðborgarsvæðið eða 2,9%

Umferð eftir vikudögum milli áranna 2014 og 2015
Líkt og fyrir síðasta tímabil hefur umferðin aukist alla vikudaga fyrir utan sunnudaga. Frá áramótum hefur umferðin aukist hlutfallslega mest á þriðjudögum eða 5,8% en dregist saman um 0,5% á sunnudögum.Lang mest er keyrt á föstudögum en minnst á  þriðjudögum.

Horfur út árið 2015
Núna bendir allt til þess að umferð geti aukist um 3 - 3,5% miðað við árið 2014.  Verði það raunin teldist það hófleg aukning yfir skemmra tímabil en í meira lagi yfir lengra tímabil. Gangi spáin eftir yrði nýtt met sett í umferðinni, á ársgrundvelli, um Hringveginn en núverandi met er frá árinu 2007. Umferðin, um teljarasniðin 16, hefur aukist að jafnaði um 1,3% frá árinu 2005 en standist spár um aukning nú í ár myndi það fela í sér að umferðin hafi aukist um 4% á ári frá árinu 2012. (Ath. 2012 var minnst ekið á Hringvegi eftir hrun).

Ath. allar umferðartölur, fyrir árið 2015, eru eingöngu grófrýndar og gætu því tekið breytingum við síðari yfirferð.