Fréttir
  • Veglínur um Hornafjörð

Hringvegur um Hornafjörð

Saga, staða og áform.

28.7.2015

Vegna umræðu um val á veglínu á nýjum vegi um Hornafjörð og nýrri brú yfir Hornafjarðarfljót er rétt að árétta að allar áætlanir Vegagerðarinnar miða við leið 3b sem er sú leið sem sveitarstjórnin hefur gert ráð fyrir á aðalskipulagi. Við val á veglínu var þetta niðurstaðan en að mati Vegagerðarinnar voru allar línur sem skoðaðar voru álíka varðandi vegtækni og umferðaröryggi. Skipulagsstofnun taldi þó að neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 væru minni en annarra kosta.

Umhverfismat vegna framkvæmdarinnar var móttekið hjá Skipulagsstofnun í júní 2009 og álit stofnunarinnar lá fyrir í ágúst sama ár.

Niðurstaða matsvinnu var m.a. að leið 1 hefði „óveruleg til talsverð neikvæð áhrif“ á umhverfið og að leið 3b hefði „talsverð neikvæð áhrif“.  Matsskýrslu og önnur gögn er að finna undir slóðinni http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir/umhverfismat/matsskyrslur/ á heimasíðu Vegagerðarinnar. Skipulagsstofnun telur í áliti sínu að neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 minni en annara kynntra kosta en leggst ekki gegn öðrum kostum.

Í niðurstöðum matsskýrslu segir: „Vegagerðin bendir á að allar framlagðar leiðir eru álíka hvað varðar vegtækni og umferðaröryggi. ... En litið til umferðarskipulags til framtíðar hentar leið 3b hvað best hagsmunum sveitarfélagsins að þeirra áliti enda er það sá kostur sem sveitarfélagið Hornafjörður hyggst setja inn á drög að aðalskipulagi.“

 Mynd 6.1 úr matsskýrslu: Lega leiða 1, 2 og 3 (ásamt nýrri útfærslu leiðar 3, leið 3b) þegar búið er að taka tillit til ábendinga vegna áhrifa á hljóðvist, landnotkun, gróðurfar, fornleifar og fuglalíf

Aðalskipulagi Hornafjarðar var breytt árið 2009 og var þá gert ráð fyrir fyrirhuguðum vegi skv. leið 3b. Áður var á aðalskipulagi veglína sambærileg leið 3b en sunnar. Á aðalskipulagsuppdrætti staðfestum í september 2014 má jafnframt sjá fyrirhugaðan veg skv. leið 3b. Sjá http://www.skipulagsstofnun.is/skipulagsmal/skipulagssja/.

Allar áætlanir Vegagerðarinnar miða að framkvæmd þessarar leiðar. Undanfarna mánuði hefur gögnum verið safnað og rannsóknir gerðar til að vinna megi úr þeim nk. vetur. Í tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2013-2016 er gert ráð fyrir 88 m kr. til verksins árið 2016 og að því verði framhaldið árið 2017.

Hönnun miðar að því að lágmarka umhverfisáhrif og uppfylla loforð og skilyrði úr matsvinnu, m.a. er stefnt að því að full vatnsskipti náist með nógu stórum brúaropum og ræsum.