Fréttir

Færri heimsóttu Borgarfjörð eystra í ár

flestir komu árið 2013 miðað við þær mælingar sem eru til

27.7.2015

Áætla má að um 5700 manns hafi komið Borgarfjarðar eystra í kringum tónleikahátíðina Bræðsluna í ár. Það er heldur færra en í fyrra en reikna má með að flestir hafi komið árið 2013 eða um 7100 manns. Ekki sækja allir tónleikana því allajafna er uppselt á þá. 

Umferð um Vatnsskarð, á Borgarfjarðarvegi (94) í kringum bræðsluhátíð á Borgarfirði eystra, var með minnsta móti árið árið 2015. Vegagerðin hefur tekið saman umferðartölur frá árinu 2010 um skarðið frá mánudegi, fyrir bræðslutónleikana, til sunnudags eftir tónleika.  Niðurstaðan er sú að leita þarf aftur til ársins 2011, til að finna minni umferð í þessari viku. 


Umferðin á umræddu tímabili gefur til kynna að um 5700 manns hafi komið til Borgarfjarðar eystra í kringum tónleikanna. Með sömu aðferð áætlar Vegagerðin að um 6700 manns hafi heimsótt Borgarfjörð eystri, í tónleikaviku, á síðasta ári. Gestir á Borgarfirði eystra gætu því hafa verið um 15% færri nú í ár miðað við síðasta ár en ekkert færri á Bræðslunni sjálfri enda uppselt á hana yfirleitt löngu áður en að henni kemur. 

Áætlað er að flestir hafi heimsótt Borgarfjörðinn, í þessari viku, árið 2013 en þá er reiknað með því að um 7100 manns hafi heimsótt staðinn, í umræddri viku.