Fréttir
Miklu meiri umferð á höfuðborgarsvæðinu í júní í ár en áður
aukningin nemur 8 prósentum og er þetta metumferð
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júní er met líkt og á Hringveginum (sjá eldri frétt), aldrei hefur mælst meiri umferð í einum mánuði á svæðinu. Umferðin jókst um heil átta prósent frá því í júní í fyrra og hefur aukningin á milli mánaða aðeins einu sinni mælst jafnmikil. Frá áramótum, eða fyrstu sex mánuðina, hefur umferð hinsvegar aukist hóflega eða um 2,6 prósent.
Áætlað er að umferð hafi aukist mikið í nýliðnum júní borið saman við sama mánuð síðasta árs, eða rúmlega 8%. Aðeins einu sinni áður, frá hruni, hefur umferð aukist svipað milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu en það var árið 2013 þegar umferðin jókst um 8% milli apríl 2012 og 2013. Hér er því um fáséða aukningu að ræða.
Umferð jókst mikið í öllum teljarasniðum en mest í sniði á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 10,5%. Þessi mikla aukning varð til þess að aldrei hafa fleiri bílar ekið yfir mælisniðin þrjú, í einum mánuði, en alls er áætlað að um 147 þúsund ökutæki hafi farið daglega um þau í nýliðnum júní.
Frá áramótum 2014 og 2015
Það sem af er ári hefur umferð aukist um 2,6% borin saman við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er hófleg aukning miðað við árstíma.
Horfur út árið 2015
Nú stefnir í að umferðin á höfuðborgarsvæðinu gæti aukist um tæp 3% í ár, ef marka má umrædd mælisnið. Slík aukning væri þá í nokkru góðu samhengi við hagvaxtaspár, sjá meðfylgjandi graf og einnig talnaefni.
Umferð eftir vikudögum
Umferðin, eftir vikudögum, frá áramótum hefur aukist alla vikudaga. Þetta í fyrsta sinn frá áramótum sem sjá má aukningu í umferðinni á öllum vikudögum. Það má því segja að ökumenn séu búnir sé að vinna upp slæma veðurtíð í byrjun árs.
Hlutfallslega hefur umferð aukist mest á þriðjudögum eða 3,9% en minnst á föstudögum eða 1,1%.
Athugið að þetta eru órýndar tölur og ber að taka með nokkrum fyrirvara.
