Umferðarmet í júní
aldrei hefur verið meiri umferð á Hringveginum í júní
Umferð í nýliðnum júní mánuði jókst mikið miðað við sama mánuð á síðasta ári eða um 4,6% og var nýtt met verið slegið í umferðinni um Hringveginn í sama mánuði þ.e.a.s. aldrei hafa fleiri ekið um Hringveginn í júní mánuði fram til þessa. Þetta er þriðja árið í röð þar sem umferð eykst á milli ára í júní mánuði. Umferð jókst mest um mælisnið á Austurlandi eða 11% en minnst um Suðurland eða 1,9%.
Milli ára 2014 og 2015
Það sem af er ári hefur umferðin á Hringveginum aukist um 2,2% en það er heldur minni aukning miðað við sama tímabil á síðasta ári en þá nam aukningin 5,2%. Líkt og milli júní mánaða hefur umferð aukist mest, frá áramótum, um Austurland eða 12,1% en minnst um Suðurland eða 1,1%.
Það er svolítið athyglisvert að umferð á Hringvegi um Suðurland eykst ekki jafn mikið og á öðrum landssvæðum. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að mikið er rætt um aukningu ferðamanna um Suðurland t.d. á Gullna Hringnum, en Hringvegurinn er hluti þeirrar leiðar. Umferðin á Hellisheiði jókst t.d. aðeins um 1,9% milli júní mánaða og hefur hún dregist saman um 0,7% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Hugsanlega er þetta vísbending um breytt leiðarval á Suðurlandi og eða umsvif á þessu landssvæði aukist hóflegar en á öðrum landssvæðum. En erfitt er að meta það nákvæmlega. Hugsanlega fer nú líka hluti umferðar um Suðurstrandaveginn sem áður fór um Hringveginn.

