Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið

Umferðarmet í júní

aldrei hefur verið meiri umferð á Hringveginum í júní

1.7.2015

Umferðin á Hringveginum hefur aldrei áður verið meiri en í nýliðnum júní mánuði. Umferðin jókst um 4,6 prósent frá því í júní í fyrra og hefur nú aukist þrjú ár í röð í júní. Umferðin á Hringvegi í ár hefur aukist um 2,2 prósent sem er minni aukning en í fyrra. Áberandi er að aukningin er minnst á Suðurlandi.

Milli mánaða 2014 og 2015 

Umferð í nýliðnum júní mánuði jókst mikið miðað við sama mánuð á síðasta ári eða um 4,6% og var nýtt met verið slegið í umferðinni um Hringveginn í sama mánuði þ.e.a.s. aldrei hafa fleiri ekið um Hringveginn í júní mánuði fram til þessa. Þetta er þriðja árið í röð þar sem umferð eykst á milli ára í júní mánuði. Umferð jókst mest um mælisnið á Austurlandi eða 11% en minnst um Suðurland eða 1,9%.

Milli ára 2014 og 2015
Það sem af er ári hefur umferðin á Hringveginum aukist um 2,2% en það er heldur minni aukning miðað við sama tímabil á síðasta ári en þá nam aukningin 5,2%. Líkt og milli júní mánaða hefur umferð aukist mest, frá áramótum, um Austurland eða 12,1% en minnst um Suðurland eða 1,1%.

Það er svolítið athyglisvert að umferð á Hringvegi um Suðurland eykst ekki jafn mikið og á öðrum landssvæðum. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að mikið er rætt um aukningu ferðamanna um Suðurland t.d. á Gullna Hringnum, en Hringvegurinn er hluti þeirrar leiðar.  Umferðin á Hellisheiði jókst t.d. aðeins um 1,9% milli júní mánaða og hefur hún dregist saman um 0,7% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Hugsanlega er þetta vísbending um breytt leiðarval á Suðurlandi og eða umsvif á þessu landssvæði aukist hóflegar en á öðrum landssvæðum. En erfitt er að meta það nákvæmlega. Hugsanlega fer nú líka hluti umferðar um Suðurstrandaveginn sem áður fór um Hringveginn.

Samanburður
Horfur út árið 2015
Nú stefnir í að umferðin, á Hringvegi, gæti aukist um rúmlega 2% í ár miðað við árið á undan. Gangi þessi spá eftir myndi gamla metið, frá árinu 2007, verða slegið um töluvert. 


Umferð eftir vikudögum 
Umferð hefur aukist alla vikudaga nema sunnudaga, það sem af er ári. Hlutfallslega eykst umferðin mest á mánudögum og þriðjudögum en dregst saman um 1% á sunnudögum. Þar sem Suðurland var gert að umræðuefni þá sker það landssvæði sig úr varðandi aukningu eftir vikudögum. Meðan umferð eykst alla vikudaga á öðrum landssvæðum, nema á sunnudögum við höfuðborgarsvæðið, þá hefur umferð dregist saman frá föstudögum til sunnudaga á Suðurlandi. Umferðin eftir vikudögum