Fréttir
  • Lokanir fjallvega
  • Bæta vegi eða slitlag
  • Jákvæðni í garð Vegagerðarinnar

Almenn ánægja með lokanir fjallvega í vetur

jákvæðni í garð Vegagerðarinnar minnkar í nýrri könnun

10.6.2015

Almennt eru vegfarendur og landsmenn ánægðir með lokanir á fjallvegum í vetur, samkvæmt könnun Maskínu fyrir Vegagerðina um viðhorf almennings til Vegagerðarinnar og starfa hennar. Könnunin er um þjóðvegi. Ánægja er með heimasíðu Vegagerðarinnar og símaþjónustu en aðrir þættir eru lakari en verið hafa undanfarin ár. Áberandi er óánægja með slitlag og bætingu vega.


Spurt er um sömu þætti ár eftir ár, annars vegar að sumri og hinsvegar að vetri til. Í vetrarkönnunni í ár var í fyrsta sinn spurt um lokanir fjallvega með lokunarhliðum og vöktun björgunarsveitanna. Þetta er nýmæli hjá Vegagerðinni og í ljós kemur að þetta mælist vel fyrir þar sem um 77 prósent eru sátt við þessa tilhögun eða mjög sátt. Tæp 19 prósent eru í meðallagi sátt en einungis 4,4 prósent eru ósátt.

Almennt þá kemur heimasíða Vegagerðarinnar mjög vel út úr þessari könnun sem og símsvörun. Mikil ánægja með hvorutveggja. Snjómokstur og hálkuvarnir fá svipaða svörun og undanfarin ár. En aðrir þættir koma nokkuð lakar út í ár en undanfarin ár, svo sem um framsýni Vegagerðarinnar, sýnileika, fagmennsku, hvort Vegagerðin standi sig í því að breikka vegi og almennt minnkar jákvæðni gagnvart Vegagerðinni. Mest minnkar þó jákvæð afstaða til þess hvernig  vegfarendur upplifa að Vegagerðin standi sig í því að bæta vegi eða slitlag.

Þessi niðurstaða er umhugsunarverð fyrir Vegagerðina. Þjónusta við almenning í gegnum heimasíðu og símsvörun kemur vel út. Ánægjulegt er hve vel landsmenn taka í lokanir fjallvega. Einnig að þrátt fyrir erfiðan vetur þá er afstaðan til hálkuvarna og snjómoksturs svipuð. Reikna má með að umræða um Vegagerðina í vetur hafi leitt til aukinnar neikvæðni og nokkuð ljóst að mikill fjöldi hola á vegunum á höfuðborgarsvæðinu og víða annarsstaðar eftir að snjóa leysti í vor hefur einnig sitt að segja í þessari könnun.