Fréttir
  • Undirritun samkomulags SSH og Vegagerðarinnar
  • Undirritun samkomulags SSH og Vegagerðarinnar
  • Undirritun samkomulags SSH og Vegagerðarinnar

Samstarf um samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu

samkomulag SSH og Vegagerðarinnar

17.4.2015

Samkomulag milli SSH, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og Vegagerðarinnar um samstarf um þróun samgöngukerfa á höfuðborgarsvæðinu var undirritað í dag föstudaginn 17. apríl. Samkomulagið snýr að þróun stofnvegakerfisins, þróun stofnleiða hjólreiða, þróun almenningssamgangna og sjálfbæra samgönguáætlun á höfuðborgarsvæðinu.


Það voru þeir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem undirrituðu samkomulagið á fundi SSH í Kópavogi. Sá síðarnefndi fyrir hönd SSH. 

Unnið er að svæðiskipulagi höfuðborgarsvæðisins og samkomulagið hefur skírskotun í svæðiskipulagstillöguna. Einnig er vísað í hagkvæmnismarkmið í samgönguáætlun 2011-2022. Verkefnin eru fjögur eins og talið er upp hér að ofan. 

Markmiðið er að meginstofnvegir tryggi greiða og örugga umferð fólks og vöru. Farið er yfir það í samkomulaginu að "meirihluti ferða innan höfuðborgarsvæðisins 2040 verður á einkabíl þótt ferðavenjur breytist umtalsvert með þróun samgöngukerfa og byggðar sem stefnt er að og vöxtur bílaumferðar verði mun hægari en síðustu áratugi. 

Stofnvegakerfið gegnir áfram mjög mikilvægu hlutverki í flutningum fólks og vöru og í hugsanlegri rýmingu höfuðborgarsvæðisins á hættu- og neyðartímum. Stofnvegir á höfuðborgarsvæðinu eiga að mynda heildstætt tveggja laga kerfi. Stofnvegir verða flokkaðir í meginstofnvegi og stofngötur með mismunandi áherslum fyrir hvorn flokk fyrir sig auk þess sem ráðist verður í frekari undirflokkun. 

Meginstofnvegir tryggja greiða og örugga umferð fólks og vöru í gegnum höfuðborgarsvæðið og að/frá svæðinu með áherslu á alþjóðlegar megingáttir samgöngukerfis landsins. Aðrir stofnvegir, þ.e. stofngötur höfuðborgarsvæðisins, geta þróast með bætta sambúð þéttbýlis og umferðar að leiðarljósi."


Teiknaðar hafa verið meginstofnvegir og stofngötur ásamt vaxtarmörkum byggðar. Sjá kort hér fyrir neðan:


Þemakort-stofnvegir

Skýringartexti: Kortið sýnir þá stofnvegi sem eru í grunnneti samgangna skv. samgönguáætlun 2011-2022 og skiptingu þeirra í meginstofnvegi og stofngötur. Nánari lega þeirra er ákveðin í aðalskipulagi sveitarfélaga, í samstarfi við Vegagerðina. Til stofnvega flokkast einnig eftirtaldir vegir sem eru í aðalskipulagsáætlunin sveitarfélaga: Sundabraut, Ofanbyggðarvegur sem meginstofnvegir og Öskjuhlíðagöng sem stofngata.