Fréttir
  • Hvalfjarðarvegur við Botnsá
  • Hvalfjarðarvegur við Botnsá
  • Borgarfjarðarbraut
  • Sauðárkróksbraut
  • Stafá
  • Stafá
  • Keldur
  • Úrrennsli Hítarnessvegi
  • Ræsarör í Borgarnesi
  • Ræsarör í Borgarnesi

Töluverðar skemmdir á klæðingu víða um land

Skemmdir verða merktar og lagfærðar þegar hægt verður

16.3.2015

Víða á landinu hefur klæðing, bundna slitlagið, fokið af vegum og skapar það þar af leiðandi hættu. Unnið er að því að merkja þessa staði en ljóst er að það mun taka nokkurn tíma að koma slitlagi aftur á vegina. Það verður gert um leið og færi gefst með vorinu.


Unnið er að því að merkja þá staði þar sem skemmdir hafa orðið á klæðingunni. Vegfarendur eru beðnir um að fara varlega og það er nauðsynlegt að hægja á ferðinni þegar farið er yfir þessa skemmdu vegi. Lengri tíma mun taka að gera við skemmdirnar en það verður gert með vorinu. En veður og hitastig og annað þarf að vera þokkalegt til að unnt sé að leggja nýja klæðingu á þessa kafla.

Skemmdir urðu m.a. á Suðursvæði, annarsvegar við Borg í Grímsnesi og hinsvegar við Óseyrarbrú. Einnig fauk klæðing af innri öxl (vinstri kant) á Reykjanesbraut á tveimur stöðum. Skemmdir urðu á vegi í Brynjudal og í Hvalfjarðarbotni, einnig fauk klæðing af kafla á Eyrarfellsvegi við brú í Miðdal og skemmdir urðu á Þingvallavegi nálægt Grafningsvegi. Það virðist vera lítið um skemmdir í Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Minniháttar skemmdir á tveimur stöðum í Árnessýslu. Þá fuku átta ljósastaurar á Reykjanesbrautinni um koll.

Á Norðursvæði hafa orðið töluverðar skemmdir á slitlögum í Skagafirði. Á laugardag urðu verulegar skemmdir á Siglufjarðarvegi við Stafá síðan bættist við einn blettur í Sléttuhlíð rétt sunnan við Keldur og annar á Sauðárkróksbraut við flugvöllinn.  Á Norðausturvegi við gamla Öxarfjarðarheiðarveginn á Leirtjarnarhálsi urðu skemmdir á um 70 m2 kafla. Smávægilegar skemmdir urðu á klæðingum í Húnavatnssýslum.  

Talsverðar skemmdir urðu einnig á Vestursvæði á Innstrandavegi og í Tungusveit og á Stikuhálsi.  Einnig urðu skemmdir á Borgarfjarðarbraut við Kvikstaði. Á laugardag fauk slitlag af Útnesvegi í Neshrauni á um 50 m2 kafla. Af Snæfellsnesvegi í Kolgrafafirði á u.þ.b. 40 m2 kafla og austan við Bjarnarhafnarfjalli u.þ.b. 150 mkafla.  Í Álftafirði lokuðu krapa- og aurflóð vegi á Úlfarsfellshlíð og austan við Birgishöfða. Gert var við skemmdir í Álftafirði  og slitlag þegar veður gekk niður á laugardag. Á svæðinu rann einnig lítillega úr vegum númer 52 við Snartarstaði, 512 við Gullberastaði, smávegis á vegi 517 og mest á Hítarnesvegi 566. Á Vesturlandi fauk líka hluti klæðningar við þrjár brýr, Staðarhólsárbrú, Hvolsárbrú og Hundadalsárbrú. Einnig fauk klæðing af um 50 metra kafla á heimreiðinni að Sauðafelli. Á Austurlandi fauk klæðing af Hringvegi norðan við Vegaskarð. Smávægilegar skemmdir urðu víða á Austurlandi vegna vatnavaxta um helgina þar sem ræsi höfðu ekki undan og vatn rann yfir veg. Heimreiðar fóru í sundur á nokkrum stöðum. Einnig var töluvert grjóthrun í Kambanesskriðum og Þvottárskriður lokuðust vegna aurskriðu.

Þá fóru ræsarör í lóð  Vegagerðarinnar í Borgarnesi af stað og  skemmdu girðinguna milli Vegagerðar og Límtré - Vírnets.

Myndir fylgja hér með af nokkrum þessara skemmda.