Fréttir
  • Snjallvefur Vegagerðarinnar
  • Snjallvefur Vegagerðarinnar
  • Snjallvefur Vegagerðarinnar

Vef Vegagerðarinnar breytt í snjallvef

vefurinn bregst við því tæki sem notað er til að skoða vefinn og aðlagar sig að því

4.3.2015

Vef Vegagerðarinnar hefur verið breytt í snjallvef. Snjallvefur ("responsive web") er vefur sem aðlagar sig sjálfvirkt að skjástærð notandans, þ.e.a.s. raðar upp og birtir efni vefsíðna eins og best hentar viðkomandi tæki.


Snjallvefur Vegagerðarinnar birtist á þrjá vegu.  Hann birtist í því hefðbundna útliti sem verið hefur síðan vefurinn var tekinn í notkun sumarið 2013, hann birtist í spjaldtölvuútliti og einnig birtist vefurinn í snjallsímaútliti.  Vefurinn er hannaður sem "puttavænn" vefur, þ.e.a.s. vefur sem auðvelt er að nota í tækjum með snertiskjá.

Í spjaldtölvu- og snjallsímaútliti birtir vefurinn ekki aðalflokka né aðrar upplýsingar í haus og engar hliðarvalmyndir birtast vinstra megin á vefsíðum.  Þess í stað hefur notandinn aðgang að leiðakerfi vefsins með því að smella á "hamborgarann" sem birtist hægra megin í haus vefsíðunnar. (Hamborgarinn eru þrjár línur sem vísa í leiðarkerfið.) Munurinn á spjaldtölvu- og snjallsímaútliti felst m.a. í því að forsíða vefsins í snjallsímaútgáfunni er hönnuð fyrir skjástærð snjallsímanna.

Með þessum breytingum á vefnum fylgir Vegagerðin nýjustu straumum í vefframsetningu en þróunin er mikil í þá átt að gera vefi snjalla frekar en að búa til og viðhalda sérstökum farsímavefum.  Notendum að vef Vegagerðarinnar hefur fjölgað verulega undanfarin ár og einnig hefur notkunin breyst á þann veg að notendur vefsins nota í auknu mæli snjalltæki þó svo að vefurinn hafi ekki verið hannaður sem snjallvefur þar til nú.  Mælingar á notkun vefsins benda til að síðar á þessu ári verði fjöldi snjalltækjanotenda að vef Vegagerðarinnar kominn upp fyrir fjölda þeirra notenda sem nota borð- og fartölvur.