Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Umferð dregst saman á Hringvegi í febrúar

samdrátturinn nemur fimm prósentum

2.3.2015

Umferðin á völdum mælipunktum á Hringveginum dróst saman um heil fimm prósent í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra. Fara þarf aftur til ársins 2010 til að finna viðlíka samdrátt.

Milli mánaða áranna 2014 og 2015
Umferðin í nýliðnum febrúar dróst saman um 5% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þetta er mesti samdráttur milli febrúarmánaða frá árinu 2010. Umferðin í nýliðnum febrúar reyndist einnig minni en febrúar 2013. Mestu munar um mikinn samdrátt á umferðarmestu svæðum landsins, en mestur mældist samdrátturinn um Suðurland eða um 6%. Aukning varð aftur á móti um Norður- og Austurland.

Frá áramótum milli áranna 2014 og 2015
Miðað við tvo fyrstu mánuði ársins hefur umferðin dregist saman um 2,6%, miðað við sama árstíma á síðasta ári. Mest hefur umferðin dregist saman um Suðurland eða um 3,5%, en aftur á móti hefur orðið mikil aukning um Austurland eða um 7,7%, en það svæði hefur lítið vægi í heildarumferðinni á landinu öllu.

Umferðin fyrstu 3 mánuði ársins á 16 lykilteljurum hefur ekki gefið nægjanlega góða vísbendingu um hvers má vænta út árið, það er því of snemmt að draga ályktanir af þessum tölum. 

Mest hefur umferðin frá áramótum dregist saman á sunnudögum samanber mynd sem fylgir þessari frétt. Líklegt er að veðrið spili inn í og minna sé um "sunnudagsbíltúra" vegna þess þótt atvinnutengd umferð haldi sér aðra vikudaga. Veðrið var reyndar ekki sérlega gott fyrir ári síðan heldur þannig að fróðlegt verður að sjá hvort þessi þróun samdráttar haldi áfram þegar veður og færð batnar með vorinu.

Samanb-februar

Ath!
Um órýnd gögn er að ræða, sem gætu tekið breytingum síðar.