Fréttir
  • Hornafjörður Grynnslin

Rannsóknir á Grynnslunum utan við Hornafjarðarós

og áhrif á siglingar - áfangaskýrsla

26.2.2015

Nauðsynlegt er að halda áfram rannsóknum á Grynnslunum fyrir utan Hornafjarðarós svo hægt sé að koma með tillögur að lausnum en þarna rís land með auknum hraða, ósarnir fyrir innan eru grunnir og því ekki ljóst hvernig ósinn muni bregðast við minnkandi rennsli. Út er komin áfangaskýrsla um Grynnslin þar sem kynnt er tillaga að þriggja ára rannsóknaráætlun.

Skýrsluna er hér að finna. Eða fara beint í hana hér.

Hornafjarðarós er í eðli sínu eins og aðrir sjávarfallaósar. Þar takast á öfl með gagnstæð hlutverk, annars vegar er það aldan sem flytur sand að og fyrir ósinn og leitast við að loka honum, og hins vegar sjávarfallastraumar háðir sjávarföllum og stærð lóna innan við ósinn, sem leitast við að halda honum opnum. Ósinn sker á sandflutning meðfram ströndinni með þeim afleiðingum að sandur leitar út á grynningar rétt fyrir framan ósinn til þess að komast framhjá ósnum. 


Þessar grynningar valda erfiðleikum í siglingum um sjávarfallaósa og framan við Hornafjörð eru þessar grynningar kallaðar Grynnslin.

Umhleypingar á síðustu öld, annars vegar í lok áttunda áratugarins og hins vegar í lok þess níunda, urðu uppspretta að rannsóknum á svæðinu og í framhaldinu tókst að koma stöðugleika á ósinn. Það var gert í þremur áföngum á árunum 1991 til 2002. 

Sú mikla vinna sem unnin hefur verið á síðustu árum hefur gefið góðan grunnskilning á eðli Grynnslanna. Enn er þó mikil vinna eftir og áframhaldandi rannsóknir grundvöllur fyrir því að hægt verði að koma fram með tillögur af lausnum.

Rannsóknir og bættar aðstæður á Grynnslunum er grundvallarþáttur í að útgerð geti haldið áfram að þróast á Hornafirði. Til þess að útgerðin geti haldið áfram að vera samkeppnishæf þarf hún að geta endurnýjað flota sinn í takt við þær nýjungar sem eiga sér stað hvað varðar meðhöndlun afla og rekstrarhagkvæmni skipa. Djúprista þessara nýju skipa er hins vegar of mikil fyrir Grynnslin. Útgerðin þyrfti að fara í sérsmíði á nýjum skipum til þess að þau geti siglt við núverandi aðstæður á Grynnslunum en það er kostnaðarsamt.

.Í lok skýrslunnar er sett fram tillaga að rannsóknaáætlun til þriggja ára sem hefur það að markmiði að leita leiða til að auka dýpi á Grynnslunum. 

Á þessu stigi er ekki ljóst hverjar niðurstöður rannsóknanna verða og hvort þær leiði til tilagna sem líklegar eru til að auka dýpi á Grynnslunum til langframa.Hornafjörður er á þeim stað á landinu þar sem landris hefur mælst einna mest. 

Fyrir liggja spár um aukið landris á næstu árum. Vegna þess hve lónin eða firðirnir inn af ósnum, Hornafjörður og Skarðsfjörður, eru grunn þá eru líkur á að rennslið um ósinn muni minnka verulega. Ekki er ljóst hvernig Hornafjarðarós muni bregðast við minnkandi streymi um Ósinn, en rannsóknaáætlunin mun einnig fjalla um þann þátt.