Fréttir
  • Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar - Lausn með brú
  • Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar - Lausn með undirgöngum

Mislæg greiðfærni á dagskrá

Líka á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar

13.3.2017

Vegagerðin hefur lagt áherslu á undanförnum mörgum árum að ákveðnar stofnbrautir væru með mislæg gatnamót til að tryggja greiðfærni, gott og öruggt flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg hefur verið andsnúin slíkum gatnamótum en Vegagerðin hefur lagt áherslu á að halda alltaf opnum þeim möguleikum í skipulagi borgarinnar að byggja mætti mislæg gatnamót þar sem það er talið nauðsynlegt -- þótt það yrði ekki gert á næstunni. Það á einnig við um mislæg gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.

Í áratugi hefur verið miðað við að ákveðnar stofnbrautir verði eða geti orðið greiðfærar með mislægum gatnamótum.

Aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafa sýnt þessar stofnbrautir með mislægum gatnamótum svo og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, sem samþykkt var upp úr síðustu aldamótum.

Stofnbrautirnar eru:

·         Reykjanesbraut allt  frá Keflavíkurflugvelli að Vesturlandsvegi við Elliðaárósa og áfram að fyrirhugaðri

·         Sundabraut og síðan eftir Sundabraut norður á Kjalarnes og allt að Hvalfjarðargöngum.

·         Hafnarfjarðarvegur frá vegamótum í Engidal (Álftanesveg) norður að Sæbraut í Reykjavík.

·         Vesturlandsvegur og Miklabraut frá Grensásvegi að miðbæ Mosfellsbæjar.

·         Suðurlandsvegur frá Vesturlandsvegi austur fyrir Rauðavatn.

·         Breiðholtsbraut frá fyrirhuguðum vegamótum við Arnarnesveg að Suðurlandsvegi við Rauðavatn.

Við þessar skipulagsáætlanir hefur verið miðað að mestu leyti.

Reykjanesbraut er nú þegar með mislæg vegamót frá Keflavík að Straumi, framkvæmdir eru að hefjast við mislæg gatnamót Krýsuvíkurvegar, síðan er mislægt að Lækjargötu. Aftur er mislægt frá og með Urriðaholtsvegi (hjá IKEA) norður fyrir Stekkjarbakka. Næstu vegamót eru við Bústaðaveg í plani en norðan við þau eru „smáragatnamótin“ við Vesturlandsveg.

Á sama hátt er Hafnarfjarðarvegur mislægur frá og með Arnarneshæð í Garðabæ að Listabraut í Reykjavík.

Vesturlandsvegur er með mislæg gatnamót frá og með Réttarholtsvegi/Skeiðarvogi að Víkurvegi.

Varðandi gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar sem komið hafa upp í umræðu um samgöngumál að undanförnu er rétt að taka fram að Vegagerðin hefur af og til á undanförnum árum farið fram á umræðu við samgöngudeild borgarinnar um gerð mislægra gatnamóta á þessum stað en fengið þau svör að slíkt væri ekki á dagskrá. Það er því ekki rétt að Vegagerðin hafi ekki fylgt þessu máli eftir, eins og fulltrúi Reykjavíkurborgar hefur haldið fram. Það er heldur ekki rétt að þessi gatnamót hafi einungis verið sett á samgönguáætlun í mýflugumynd. Þau voru nú síðast sett í heild á samgönguáætlun 2015-2026 sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Undirbúningur að gerð mislægra gatnamóta á þeim stað var vel á veg kominn árið 2006 í samvinnu embættis borgarverkfræðings og Vegagerðarinnar. Tvær megintillögur voru lagðar fyrir borgarráð þar sem önnur tillagan gerði ráð fyrir undirgöngum undir Reykjanesbraut, en hin tillagan gerði ráð fyrir brú yfir Reykjanesbraut. Borgarráð hafnaði báðum tillögunum og óskaði eftir lagfæringum á gatnamótunum í plani. Undirgangatillagan gerði ráð fyrir örlitlum breytingum á vestasta farvegi Elliðaánna, en brúartillagan gerði ekki ráð fyrir neinu raski á farveginum.

Við undirbúning aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, komu fram tillögur um að hætt yrði við mislæg gatnamót á þessum stað. Vegagerðin gat, m.a. með tilvísun þágildandi í svæðisskipulag, mótmælt þeim hugmyndum, sem varð til þess að möguleikanum er haldið opnum og vísað til endurskoðunar svæðisskipulags.

Við gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins, sem samþykkt var 2015 og gildir til 2040, komu fram hugmyndir um að stytta verulega þær stofnleiðir, sem fram til þessa höfðu verið áætlaðar mislægar. Vegagerðin lagðist gegn þessum tillögum og lagði áherslu á að eiga þessa möguleika inni til framtíðar, þó að framkvæmdir væru ekki endilega fyrirhugaðar á næstu árum eða áratug. Niðurstaða í svæðisskipulaginu er með þeim hætti að Vegagerðin og sveitarfélögin láti vinna tæknilega úttekt á ástandi umferðarmestu vega á höfuðborgarsvæðinu og í framhaldi af því verði sett sameiginleg stefna um stærðir og gerðir þessara vega og þar með hvaða leiðir verði mislægar í framtíðinni.

Það er mikið stílbrot í kerfinu í dag að gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar skuli ekki vera mislæg. Tafir síðdegis eru mjög miklar og hætta á óhöppum og slysum því mun meiri en ella. Til bráðabirgða var á árunum 2008 eða 2009 bönnuð vinstri beygja út úr Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut til norðurs á annatímum að morgni og síðdegis. Þessi ráðstöfun hefur reynst vel á morgnana þegar umferðarstraumurinn er mestur til norðurs.

Við gerð deiliskipulags Sprengisandsreits við vegamótin hefur borgin fallist á að pláss verði fyrir mislæg gatnamót í framtíðinni.


Tölvuteiknaðar myndir af mismunandi útfærslum frá ýmsum sjónarhornum, fyrir og eftir (pdf 5,44 MB)