Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Minni umferð á höfuðborgarsvæðinu

umferðin hefur dregist saman um tæp níu prósent frá áramótum

5.8.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júlí dróst saman um 3,4 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan, umferðin var einnig minni en hún var í júní. Þetta er svipuð þróun og í venjubundnu ári nema sveiflan er stærri. Hugsanlega hefur áhrif nú að höfuðborgarbúar sæki í auknum mæli í frí út á land en aukning varð á umferð á Hringveginum í júlí miðað við nýliðin júnímánuð. Frá áramótum hefur umferðin dregist saman um tæp níu prósent.

Milli mánaða
Líkt og von var á, var ekið minna á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum júlí miðað við júní á þessu ári, þannig að einkenni umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu hafa haldið sér þrátt fyrir skrítið ástand.  Sé hins vegar umferðin í nýliðnum júlí borin saman við sama mánuð á síðasta ári, dróst hún saman um sama hlutfall og á Hringvegi, eða um 3,4%.  Mest dróst umferð saman um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um 8,9%, sem er gríðarmikill samdráttur, en minnst um mælisnið á Reykjanesbraut eða um 0,7%, sem er að festa sig í sessi sem umferðamesta mælisniðið af þessum þremur.

Frá áramótum
Nú hefur umferð dregist saman um 8,9%, frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þetta er gríðarmikill samdráttur, sem orðinn er á höfuðborgarsvæðinu líkt og á Hringvegi. Þótt hann sé minni í prósentum talið þá er hann tæplega 3 sinnum meiri en áður hafði mest mælst á höfuðborgarsvæðinu. Þessi samdráttarsveifla innan höfuðborgarsvæðisins er því hlutfallslega miklu stærri en á Hringvegi, miðað við árstíma, sem verður að teljast óvanalegt því umferðin á höfuðborgarsvæðinu er mun stöðugri en út á Hringvegi.  Vegagerðin hefur ekki rannsakað ástæður þessa en einn mögulegur hluti ástæðunnar gæti verið sá að ef höfuðborgarbúar hafa farið í meira mæli út á Hringveg en í ,,venjulegu” ári þá gæti það hafa leitt til meiri niðursveiflu í umferð innan höfuðborgarsvæðis og þá um leið valdið meiri umferð út á Hringvegi. Þetta gæti valdið því að sveiflur séu meiri innan höfuðborgarsvæðis en utan þess. En þetta er bara tilgáta eins og er.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin dróst saman í öllum vikudögum en mest á föstudögum en minnst á mánudögum.  Mest var ekið á fimmtudögum og eins og áður minnst á sunnudögum.

Horfur út árið
Nú þegar um 60% er liðið af árinu 2020 lítur út fyrir að umferðin geti dregist saman um 8% á höfuðborgarsvæðinu.  Ekki er búist við að umferð aukist í neinum mánuði, sem eftir er ársins.  Það verður hins vegar mjög fróðlegt að sjá hvernig umferðin verður í haust en september hefur gjarnan verið umferðarmestur á höfuðborgarsvæðinu.

Talnaefni