Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Samanlögð umferð í maí
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Minni aukning á umferð á höfuðborgarsvæði en Hringvegi

aukningin er samt mjög mikil

2.6.2016

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst í maí um nærri átta prósent og hefur aukning á milli mánaða ekki mælst meiri síðan fyrir hrun á höfuðborgarsvæðinu. Þessi mikla aukning nær þó ekki að jafna gríðarmikla aukningu umferðar á Hringveginum þar sem umferðin jókst um tæp 13 prósent í maí. Útlit er fyrir að umferðin í ár á svæðinu aukist um fimm prósent.

Umferð milli mánaða 2015 og 2016
Umferð jókst mjög um 7,6% í ný liðnum maí mánuði miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er mun minni aukning en varð á Hringveginum, en verður samt að teljast umtalsverð því svona mikil aukning milli mánaða hefur ekki sést síðan fyrir hrun innan höfuðborgarsvæðisins.  Mesta aukning sem mælst hefur innan höfuðborgarsvæðisins var árið 2007, þegar umferð jókst um 9,4% milli október 2006 og október 2007. 

Umferðin jókst í öllum mælisniðum, en mest um mælisnið á Reykjanesbraut eða 8,4%.

Enn eitt metið var slegið í nýliðnum mánuði en samkvæmt því þá hefur umferðin aldrei verið eins mikil í nokkrum mældum mánuði, frá upphafi,  og gera spár ráð fyrir því að svo verði út þetta ár. Einna helst er möguleiki á að september- og októberumferðin, nú í haust, geti ógnað þessu nýja meti.

Umferð það sem af er ári milli 2015 og 2016
Nú hefur umferð aukist um 7,2% það sem af er ári miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þótt að það sé mikil aukning er hún samt nákvæmlega helmingi minni en á Hringveginum, það sem af er ári, sjá eldri frétt.  Umferðin um þessi þrjú mælisnið hefur aldrei áður, frá því að þessi samantekt hófst, aukist jafn mikið miðað við árstíma.

Umferð eftir vikudögum, það sem af er ári, milli 2015 og 2016
Umferðin hefur aukist svipað, alla vikudaga þó mest  á sunnudögum eða um 8,5% en minnst á föstudögum eða um 5,8%.
Athygli vekur að miðvikudagar eru nú umferðarþyngstu dagarnir á höfuðborgarsvæðinu, en eins og áður eru sunnudagar þeir umferðarléttustu.

Horfur út árið 2016
Hegði umferðin sér svipað og undanfarin ár má búast við að hún aukist um 5%, nú í ár miðað við síðasta ár.  Þetta eru heldur hóflegri væntingar en úti á Hringvegi þar sem von er á tæplega tvöfalt meiri aukningu, sjá eldri frétt

Talnaefni