Fréttir
  • Sólveig plokkari með stikurnar
  • Hálf kerra full
  • Skottið fullt af rusli
  • Sólveig fer líka út á sjó að plokka
  • Sólveig og félagi
  • Vegagerðarfólkið og kakan
  • Fyrsta sneiðin
  • Kakan
  • Hjólbarði úr fjörunni, örin á næstu mynd sýnir hvar hann fannst
  • Hér var hjólbarðinn

Mikilvirkur plokkari fyrir vestan

Skilar Vegagerðinni stikunum

19.12.2018

Vegagerðarfólk á Patreksfirði fær reglulega heimsókn frá Sólveigu Ástu Ísafoldardóttur sem er "plokkari". Hún kemur með í farteski sínu stikur sem hún týnir upp eða "plokkar". Þetta er vel þegið því stikur sem hafa einhverra hluta vegna hafnað utan vegar má endurnota. Sólveig "plokkar" þó ívið meira en bara stikur einsog sjá má á myndunum.

Sólveig gengur um fjöll og firnindi og í þeim ferðum tínir hún upp allt rusl sem á vegi hennar verður.  Hún kemur reglulega við í þjónustustöðinni á Patreksfirði og skilar til Vegagerðarfólks stikum sem hún finnur á ferðum sínum.  Þau í þjónustustöðinni finnst þá eðlilega ástæða til að bjóða Sólveigu í kaffi, þar sem þetta áhugamál hennar kemur Vegagerðinni jú til góða sem og veröldinni allri. Auðvitað var líka kaka í boði fyrir hinn öfluga "plokkara".
Sólveig var spurð að því hversu mikið rusl hún væri búin að tína og skila á endurvinnslustöð. Hún sagði að það væri einhverjir tugir farma af stórri fólksbílakerru. Þessi áhugi Sólveigar á plokki hefur sýnileg áhrif á umhverfi Patreksfirðinga því varla sést rusl á götum lengur. Til þeirra sem vilja sýna náttúru okkar þessa virðingu þá bendir Sólveig á að þetta sé ekki bara gott fyrir umhverfið heldur sé þetta mjög góð líkamsrækt sem taki vel á og sjálf sé hún búin að léttast töluvert á þessum plokkferðum sínum. Þegar henni var svo fylgt úr hlaði að kaffitíma loknum þá opnaði hún skottið hjá sér og skilaði nokkrum stikum til Vegagerðarinnar, svona rétt í leiðinni.