Fréttir
  • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðmundur Valur Guðmundsson form. starfshóps um lagningu Sundabrautar, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.
  • Skoðaðir voru þrír valkostir og þeir bornir saman við óbreytt umferðarkerfi án Sundabrautar.

Mikill samfélagslegur ábati af lagningu Sundabrautar

Ný félagshagfræðileg greining.

25.1.2022

Sundabraut, hvort heldur er í jarðgöngum eða um brú,  hefur mikinn samfélagslegan ávinning og er metin samfélagslega hagkvæm framkvæmd samkvæmt félagshagfræðilegri greiningu á lagningu Sundabrautar. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þús. km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar og ábati fyrir samfélagið eftir útfærslu Sundabrautar með Sundabrú eða jarðgöngum gæti orðið 186-238 milljarðar króna. Mestur ábati felst í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Næstu skref eru að hefja undirbúning á umhverfismati, víðtæku samráðsferli og nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi en miðað er við að Sundabraut verði opnuð árið 2031.

 

Starfshópur um lagningu Sundabrautar, með fulltrúum Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, kynnti niðurstöður fyrsta áfanga í febrúar 2021. Niðurstaða hópsins var að Sundabrú væri hagkvæmari kostur en jarðgöng. Vóg þar þyngst að kostnaður við brúarleið er lægri auk þess sem brú hentar betur fyrir alla ferðamáta og almenningssamgöngur. Þá myndi ný Sundabraut á brú bæta samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins og til og frá borginni með því að dreifa umferð, minnka álag á öðrum stofnvegum og stytta ferðatíma.

Ríki og borg undirrituðu síðan yfirlýsingu í júlí sl. um lagningu Sundabrautar þar sem sammælst var um að Sundabraut yrði lögð alla leið á Kjalarnes í einni framkvæmd og að brautin yrði tekin í notkun árið 2031.

Í öðrum áfanga verkefnisins fékk starfshópurinn verkfræðistofuna Mannvit og danska ráðgjafafyrirtækið Cowi til að vinna félagshagfræðilega greiningu en Mannvit hefur m.a. unnið að samgöngulíkani borgarinnar. Þar voru teknir fyrir þrír valkostir og þeir bornir saman við óbreytt umferðarkerfi án Sundabrautar.

  • Sundabraut á brú yfir Kleppsvík með planvegamótum
  • Sundabraut á brú yfir Kleppsvík með mislægum vegamótum
  • Sundagöng (jarðgöng)

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var síðan fengin til að rýna helstu forsendur og niðurstöður Mannvits/Cowi og gerð er grein fyrir athugunum og ábendingum Hagfræðistofnunar í skilagrein starfshópsins.

Helstu niðurstöður félagshagfræðilegrar greiningar

Niðurstöður félagshagfræðilegrar greiningar eru að lagning Sundabrautar er metin þjóðhagslega hagkvæm og feli í sér í mikinn samfélagslegan ávinning, hvort sem hún verði lögð með brú eða göngum.

Í heild nemur þjóðhagslegur ábati 186-236 milljörðum króna, eftir útfærslu Sundabrautar með brú eða göngum. Mestur ábati felist hvort tveggja í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þús. km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar.

Tímasparnaður og styttri vegalengdir leiða einnig til færri slysa, minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda, minni umferðarhávaða og minni mengunar. Jákvæð áhrif þessa eru talin nema á milli 21,5 og 22,6 milljörðum króna yfir allt 30 ára greiningartímabilið. Ítarlegri greiningar á hljóðvist, umferðaröryggi og áhrifum á umhverfið verða gerðar á næstu stigum verkefnisins.

Gerð var sérstök næmnigreining á helstu forsendum til að skoða hvort hagkvæmni Sundabrautar breyttist verulega ef forsendur yrði aðrar. Skoðaðar voru m.a. breytingar á stofnkostnaði, tímavirði, umferðarmagni o.s.frv. Niðurstöður næmnigreiningar breyta hvorki röðun valkosta né því hvort að Sundabraut sé metin samfélagslega hagkvæm. Í öllum tilfellum er Sundabrú með planvegamótum með mesta samfélagslegan ábata.

Í samræmi við lög um samvinnuverkefni og samgönguáætlun frá árinu 2020 er gert ráð fyrir að fjármagna framkvæmdir við Sundabraut með gjaldtöku af umferð, sem hefjist þegar Sundabraut er tekin í notkun og ljúki innan 30 ára.

Næstu skref – umhverfismat, skipulag og samráð

Vinnu starfshóps um Sundabraut, sem hóf störf í júní 2020, er nú formlega lokið. Vegagerðin vinnur að undirbúningi á mati á umhverfisáhrifum og rannsóknum í samstarfi við Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Þá vinnur Reykjavíkurborg að undirbúningi nauðsynlegra skipulagsbreytinga.

Gert er ráð fyrir að mat á umhverfisáhrifum og nauðsynlegar skipulagsbreytingar taki 2 til 3 ár, frekari rannsóknir og hönnun 2 ár og útboðsferli stórrar framkvæmdar um 1-2 ár. Þessa verkhluta má vinna að einhverju leyti samhliða og miðar allur undirbúningur við að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2026 og að Sundabraut frá Sæbraut að Kjalarnesi verði lokið árið 2031.

Víðtækt samráð er jafnframt fram undan við íbúa í nærumhverfinu, hagsmunaaðila og fyrirtæki á svæðinu ásamt því að vinna þarf að samkomulagi ríkis og Faxaflóahafna varðandi nauðsynlegar aðgerðir sem gera þarf á svæðum Faxaflóahafna í Sundahöfn.

Ítarefni