Fréttir
  • Brúin yfir Steinavötn 1.10.17.
  • Brúin yfir Steinavötn 1.10.17.
  • Brúin yfir Steinavötn 1.10.17.

Mikill gangur í brúarsmíðinni yfir Steinavötn

unnið fram á nótt, auknar líkur á að gangandi umferð verði hleypt á brúna

1.10.2017

Líkur á því að hægt verði að leyfa gangandi umferð yfir brúna yfir Steinavötn hafa aukist. Ljúka þarf að skoða aðstæður og meta ástand brúarinnar í dag og að því loknu verður tekin ákvörðun. Umferð yrði þá leyfð frá og með morgundeginum, undir eftirliti og yfir daginn, og ekki á nóttunni.  

Búið er að veita vatninu frá laskaða stöplinum en grafist hafði undan honum. Svo virðist sem við það að sjatnað hefur í ánni og vatninu hleypt frá hafi möl og annað efni sest að stöplinum aftur og hann virðist því stöðugri og fastari í dag en í gær. Það eykur líkurnar á því að það verði hægt að leyfa umferð gangandi. En fyrst þarf að fá fullvissu um ástandið, álagsprófa brúna og reikna út burðarþolið. Niðurstaða ætti að fást í það síðdegis eða í síðasta lagi í kvöld. 

Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar hafa unnið hörðum höndum síðustu dægrin og voru að til klukkan hálf þrjú í nótt. Þá var búið að reka niður staura í fjögur ok (sem munu verða stöplarnir sem bera stálbitana og brúargólfið) af átta sem munu bera þessa 104 m löngu bráðabirgðabrú. Unnið var áfram í morgun og í dag við niðurreksturinn og stefnt er að því að ljúka að reka staurana niður í dag. Samhliða er unnið að smíði okanna til að taka við stálbitunum sem eru I-bitar. Það er því mjög góður gangur í þessu og nú eru menn að vonast til að jafnvel verði hægt að ljúka smíðinni á föstudag.

Hluti brúarvinnuflokksins í Vík hefur unnið að smíði brúargólfsins á Selfossi, því er lokið og verður allur mannskapurinn, eða báðir brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar, frá Vík og Hvammstanga komnir á verkstað auk fleiri starfsmanna Vegagerðarinnar frá þjónustustöðvunum í Vík og á Höfn í Hornafirði. 

Reikna má með að fljótlega verði byrjað að setja upp stálbitana á okin.

Það er enn mikið vatn í ánni þótt það fari minkandi.

Gerð hafa verið kort sem birt hafa verið hér á vefnum og á enska vef Vegagerðarinnar og má benda erlendum ferðamönnum á þau kort svo þeir geti glöggvað sig á aðstæðum, hvar er lokað og hvert og hvernig hægt er að komast, til dæmist til Hafnar Í Hornafirði.

Einsog sést á myndunum sem fylgja þá er búið að koma efni að laskaða stöplinum, búið er að hleypa vatninu sem hafði sest í dældina á brúnni af henni og unnið er að því að meta skaðann til fullnustu.