Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Mikil umferð í nóvember á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin jókst um tæp níu prósent

1.12.2016

Umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst mjög mikið í nóvember eða um tæp níu prósent og hefur ekki aukist meira síðan 2007. Nú stefnir í að umferðin í ár á svæðinu aukist um nærri 7 prósent sem er mikil aukning. Athygli vekur að frá árinu 2007 eykst umferðin gríðarlega um mælisniðin á Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi en nánast ekki neitt um Hafnarfjarðarveg. 

Milli mánaða 2015 og 2016
Umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 8,9% í nýliðnum nóvember miðað við sama mánuð á síðasta ári. Umferðin hefur ekki aukist jafn mikið, milli nóvember mánaða, síðan árið 2007.

Mikil aukning mældist í öllum mælisniðum en mest jókst umferðin um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða 10,6%.

Frá upphafi þessara samantektar (árið 2005) hefur umferðin aukist árlega um 2,6% að meðaltali milli nóvembermánaða þ.a.l. er núverandi aukning margföld meðaltalsaukning á þessu tímabili.

Frá áramótum 2015 og 2016
Nú hefur umferðin aukist um 6,7% frá áramótum og hefur sambærileg aukning, miðað við árstíma, ekki orðið síðan árið 2007.

Umferðin eftir vikudögum
Miðað við sama mánuð á síðasta ári jókst umferðin í nýliðnum mánuði hlutfallslega mest á laugardögum eða um tæp 12% en minnst var aukningin á þriðjudögum eða um 5,8%.   Mest var ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum.

Horfur út árið 2016
Hegði umferðin sér svipað og undanfarin ár má búast við 8% aukningu í næsta mánuði miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Gangi sú spá eftir myndi umferðin, í heild, fyrir yfirstandandi ár aukast um 6,9% miðað við árið 2015 fyrir mælisniðin þrjú.

Sé þessi spá, fyrir árið 2016, borin saman við niðurstöðu umræddra mælisniða fyrir allt árið 2007 kemur í ljós að umferðin í ár verði um 13,6% meiri en þá.  Það er síðan athyglivert að skoða einstaka mælisnið, í þessum samanburði, en þá kemur í ljós að umferðin um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi hefur nánast staðið í stað þ.e.a.s. hún eykst eingöngu um 0,3%. Aftur á móti virðast hin tvö mælisniðin bera upp þessa aukningu sem orðin er frá árinu 2007 en umferðin yfir mælisnið á Reykjanesbraut hefur aukist um 21% og umferðin um mælisnið á Vesturlandsvegi hefur aukist um 19%.