Fréttir
  • Höfnin í Þorlákshöfn.
  • Loftmynd af Höfn í Hornafirði. Mynd/Google Earth
  • Loftmynd af Sauðárkróki. Mynd/Google Earth
  • Dýptargrunnur af höfninni á Sauðárkróki.
  • Loftmynd af Þorlákshöfn. Mynd/Google Earth
  • Dýptargrunnur af höfninni í Þorlákshöfn.
  • Til stendur að endurbyggja vefinn Veður og sjólag á vegagerdin.is.
  • Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar.

Mikil gróska í rannsóknum hafnadeildar

Fjölmörg áhugaverð verkefni í gangi

20.2.2020

Nokkur endurnýjun og uppbygging hefur átt sér stað í hafnadeild Vegagerðarinnar að undanförnu. Aukin áhersla er nú lögð á rannsóknir innan deildarinnar og eru fjölmörg verkefni í pípunum.

Hafnadeild Vegagerðarinnar varð til árið 2013 þegar hluti Siglingastofnunar sameinaðist  Vegagerðinni. Í dag starfa tíu manns á deildinni sem sér meðal annars um hafnabótasjóð en úr honum er fjármagn veitt í hafnarframkvæmdir á landinu öllu utan höfuðborgarsvæðis og Austfjarða.

Fannar Gíslason var nýverið ráðinn forstöðumaður hafnadeildar en hann hefur starfað innan deildarinnar í 8 ár, bæði innan Siglingastofnunar og hjá Vegagerðinni. Mikil endurnýjun hefur verið í deildinni og henni hefur borist ferskur liðsstyrkur undanfarið. „Ein af grunnstoðum deildarinnar er rannsóknastarfið en við sameininguna 2013 hurfu fjárveitingar í þann hluta  sem varð til þess að rannsóknir lögðust nánast af. Í dag leggja fjórir starfsmenn áherslu á rannsóknir í sínu starfi,“ segir Fannar og telur upp þau verkefni sem nú er unnið að.

Breytingar á höfninni í Þorlákshöfn

Unnið er að rannsóknum í kringum breytingar sem fyrirhugaðar eru á höfninni í Þorlákshöfn. Þorlákshöfn var byggð fyrir fiskiskipin en nú er hafnarþörfin orðin önnur með tilkomu fraktskipa til hafnarinnar. Skipin eru stærri, breiðari og taka meiri vind á sig. Til að tryggja öryggi innsiglingar og móta nýja framtíðarsýn fyrir höfnina vinnur hafnadeildin nú að gerð öldu- og hafnalíkans fyrir  höfnina Við vinnum nú að líkani að breyttri höfn með það fyrir augum að hún geti tekið við stærri skipum.

Lenging sandfangara á Sauðárkróki og nýr hafnarkantur

Sandflutningsvandamál hefur verið viðvarandi í höfninni á Sauðárkróki. Til að koma í veg fyrir að þurfa að standa í miklum dýpkunum er nú skoðað að lengja sandfangara. Einnig er verið að kanna áhrif þess að stytta garða til að gera stærri skipum kleift að sigla í höfnina. „Rannsóknin snýr að því að meta hver áhrif breytinga á hafnargarðana verða og hvaða möguleikar eru í stöðunni til þess að viðhalda og jafnvel bæta viðleguskilyrði innan hafnar. a. Eftir því sem meiri orka kemur inn á milli hafnargarða, því meiri ókyrrð verður í höfninni,“ segir Fannar en nýlega var Helgi G. Gunnarsson ráðinn til að sjá  alfarið um þessa rannsókn.

Grjótvörn við grynnslin  á Höfn

Höfnin á Hornafirði er sannkallað eilífðarverkefni. „Þar er hækkun á landi því jökullinn er að hopa. Því þarf að dýpka innsiglinguna meira og meira til að viðhalda dýpinu,“ lýsir Fannar. Sandburður í innsiglingu hafnarinnar er í raun löngu þekktur vandi en hefur aukist með landrisi. Fannar bendir á að suðurströndin sé í raun öll lifandi vegna aurflutnings frá jökulánum.

„Um þessar mundir er verið að skoða byggingu grjótgarðs upp við Einholtskletta. Með því erum við að reyna að koma í veg fyrir að sandflutningurinn teppi innsiglinguna,“ segir Fannar og bendir á að árið 2012 hafi það komið fyrir að innsiglingin hafi lokast. Slíkt sé auðvitað mjög bagalegt enda stór útgerð á Höfn.

Hvernig má meta sjávarflóðahættu?

Bryndís Tryggvadóttir er lausráðinn starfsmaður hafnadeildar en hún varði nýverið meistararitgerð sína; Mat á aftaka sjávarflóðum. Þar kannaði hún flóðahættu og mat endurkomutíma einhvers atburðar, sjávarhæðar, ölduhæðar eða veðurs. „Hún mun á næstunni halda áfram með það verkefni á vegum Vegagerðarinnar og yfirfæra það yfir á fleiri staði á landinu. Óveðrin þennan veturinn sýna að það er mjög aðkallandi þar sem stærri atburðir virðast gerast tíðar en áður.“

Net sjávarhæðarmæla

Eitt af því sem Fannar segir afar mikilvægt að rannsaka er sjávarhæð á landinu. „Oft er talað um að jöklar séu að hopa og sjávarhæð að hækka. Hins vegar eru engir ríkisreknir sjávarhæðarmælar umhverfis landið. Slíkir mælar eru í höfnum en gögnin hafa ekki verið notuð til að greina neitt. Stærsta verkefni okkar er að setja upp net af sjávarhæðarmælum og þannig ættum við að geta greint hvernig sjávarhæð er að hækka og með hvaða hraða. Það er mjög mikilvægt tól fyrir byggðir við sjávarsíðuna,“ lýsir Fannar. Óljóst er þó hvenær farið verður í það verkefni enda á eftir að fjármagna það.

Endurbyggja vefinn Veður og sjólag

Annað mikilvægt verkefni að mati Fannars er að endurbyggja vefinn Veður og sjólag. http://www.vegagerdin.is/vs/Today.aspx?la=is Þar má finna upplýsingar um veður og sjólag sem reiknuð eru út frá gögnum frá ölduduflum, veðurstöðvum og öðrum sjálfvirkum mælabúnaði við strendur landsins. „Reiknilíkanið sem vefurinn byggir á var byggt fyrir 20 árum. Það hefur staðist tímans tönn og er bæði þægilegt og notendavænt. Hins vegar er í dag hægt að hafa spágögn nákvæmari og mun styttra á milli spágilda og því kominn tími á nýjan vef,“ segir Fannar

Meira fé þarf í rannsóknir

Fjárveiting til rannsókna í höfnum er mjög lítil að sögn Fannars. „Þremur árum fyrir sameiningu Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar voru 90 milljónir króna á þess tíma gengi ætlaðar í rannsóknir, nú eru tíu milljónir ætlaðar í málaflokkinn. Hafnabótasjóður hefur að hluta verið nýttur til að fjármagna rannsóknir, þá á kostnað framkvæmdaþátta,“ segir hann og telur mikilvægt að hugað verði betur að þessum þætti í framtíðinni.