Fréttir
  • Umferðin um Eiðhús samkvæmt teljara

Mikil breyting á Snæfellsnesi, aukin vetrarumferð

reikna má með að aukning ferðamennsku að vetri til sé ástæðan

3.6.2016

Umferðin um mælipunkt Vegagerðarinnar við Eiðhús á Snæfellsvegi hefur nú árið 2016 aukist um 26 prósent frá árinu 2015 fyrstu mánuði ársins, eða frá janúar og út maí. Sé litið lengra aftur í tímann nemur aukningin um 40 prósentum. Leiða má líkur að því að aukin vetrarferðamennska erlendra ferðamanna skýri þessa miklu aukningu, að Snæfellsnes sé í heppilegri, þannig séð, fjarlægð frá höfuðborginni þar sem langflestir erlendir ferðamenn hefja dvöl sína. 

Sama á reyndar við um Hringveginn sunnan Vatnajökuls þar sem mikil aukning hefur mælst í umferðinni í vetur, þar sem umferðin jókst um heil 83 prósent í mars sl. 

Eins og áður hefur komið fram hefur umferðin verið að aukast mikið á Hringveginum.   Sjá frétt af umferðinni á Hringveginum í maí. Þessi mikla aukning nær einnig til annara vega svo sem Snæfellsvegar við Eiðshús.  

Þegar meðalumferðin frá árinu 2003 - 2016 er skoðuð fyrir fimm fyrstu mánuði hvers árs, sést að miklar breytingar hafa átt sér stað, mikil aukning í umferðinni á þessum stað. 

Á fimm mánaða tímabili, í upphafi hvers árs, vex umferðin árlega um 4% á ári milli áranna 2011 - 2015 en hefur nú vaxið um 26% milli áranna 2015 og 2016 fyrir sama tímabil.  Þannig að hér virðist aukningin ekki einvörðungu byggjast á mikilli sumarumferð.