Fréttir
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Mikil aukning í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu

umferðin jókst um 6,5 prósent

6.9.2017

Ekkert lát er á aukningu umferðarinnar, á höfuðborgarsvæðinu jókst umferðin um 6,5 prósent í ágúst. Þetta er mikil aukning en að jafnaði fóru um 168 þúsund ökutæki um mælisnið Vegagerðarinnar daglega. Nú stefnir í að aukningin í ár gæti orði um 8 prósent sem yrði þá önnur mesta aukningin á eftir aukningunni árið 2007.

Umferð milli mánaða 2016 og 2017
Umferðin jókst um 6,5% í nýliðnum ágúst mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er mikil aukning þegar horft er til þess að ágúst mánuður er með umferðarmestu mánuðum á höfuðborgarsvæðinu og meðalaukning á ári frá árinu 2005 er tæp 3%.

Að jafnaði fóru um 168 þúsund ökutæki um sniðin þrjú á degi hverjum í ágúst sem er næst mesti ökutækjafjöldi á árinu.

Mest jókst umferðin um  sniðið á Reykjanesbraut (Costco-sniðið) eða um 11,5% en minnst jókst umferðin ofan Ártúnsbrekku eða um 3,4%.

Umferð frá áramótum
Nú hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um 8,6% miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þetta er svipuð aukning miðað við árstíma og árið 2007 en munurinn er sá að umferðin er 24% meiri nú en þá.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin eftir vikudögum í ágúst var þannig að fimmtudagar voru stærstir en eins og áður eru sunnudagar minnstir. Hlutfallslega jókst umferðin mest á þriðjudögum en minnst á sunnudögum.

Horfur út árið 2017
Útlit er fyrir að umferðin verði um 8% meiri nú í ár miðað við síðasta ár.  Ef þessi spá gengur eftir yrði það önnur mesta aukning frá því þessar athuganir hófust árið 2005 en umferðin milli áranna 2006 og 2007 óx um rúmlega 9% og hefur það met ekki verið slegið enn.

Talnaefni

Ath. er vakin á eftirfarandi:Öll gögn árið 2017 eru eingöngu grófrýnd og gætu því átt eftir að breytast við endanlega yfirferð.

Mælisnið Vegagerðarinnar eru í heild yfir 300, á öllu þjóðvegakerfinu, hér er því aðeins um lítið brot til athugunar, sem notað er til að gefa vísbendingu um það sem er að gerast á Hringvegi.