Metumferð í apríl á Hringvegi
mesta umferð sem mælst hefur í apríl
Met var sett í umferðinni á Hringvegi í apríl en aldrei hefur mælst jafnmikil umferð í þeim mánuði. Umferðin frá sama mánuði í fyrra jókst um tæpt 21 prósent. Umferðin reyndist 8,5 prósentum meiri en hún hefur áður mælst í apríl. Umferðin jókst mest á Austurlandi en í mælisniði á Mýrdalssandi jókst umferðin um heil 170 prósent.
Umferð milli mánaða 2021 og 2022
Gríðarmikil aukning varð í umferð yfir 16 lykilteljara
Vegagerðarinnar, á Hringvegi í nýliðnum apríl borið saman við sama mánuð á
síðasta ári, eða tæplega 21% aukning. Þessi aukning varð til þess að nýtt umferðarmet var
sett í aprílumferð en hún reyndist 8,5% meiri en hún hafði áður mælst. Fyrra met var frá
árinu 2019.
Hlutfallslega mældist mest aukning á Austurlandi eða rúm 52% en minnst jókst umferðin við höfuðborgarsvæðið eða um tæp 12%.
Af einstaka stöðum varð mest aukning um mælisnið á Mýrdalssandi eða um rétt rúm 170%.

Frá áramótum
Nú hefur umferð aukist á öllum landssvæðum, frá áramótum, að
undanskildum mælisniðum við höfuðborgarsvæðið en þar hefur umferð dregist saman um rúm
3%. Mest hefur umferð aukist um Austurland eða um rúm 22%.
Umferð eftir vikudögum
Athygli vekur að umferðin hefur dregist saman fyrri part
meðalvikunnar en aukist seinni hluta hennar. Mest hefur umferð aukist á
miðvikudögum, eða um rúmlega 6%, en dregist mest saman á mánudögum, eða um tæp 7%.
Mest hefur verið ekið á föstudögum en minnst á laugardögum.
Horfur út árið 2022
Hegði umferðin sér svipað og í venjulegu árferði, það sem
eftir lifir árs, má eiga von á því að 2022-umferðin aukist lítillega
borið saman við árið 2021 eða um 0,3%. Gangi það eftir yrði umferðin samt
sem áður tæplega 2% minni en metárið 2019.