Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Metin í umferðinni falla og falla

ekki dró úr akstri á bíllausa daginn

5.10.2016

Enn halda metin í umferðinni áfram að falla. Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í september hefur aldrei verið meiri, hún jókst um rúmlega átta prósent miðað við september mánuð fyrir ári síðan. Nú stefnir í að umferðin aukist um 6,5 prósent í ár sem er gríðarlega mikil aukning á þessu svæði. Nú hafa 41 milljón ökutækja farið um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar frá áramótum.

Milli mánaða 2015 og 2016
Umferð jókst gríðarlega í nýliðnum september miðað við sama mánuð á síðasta ári, um 3 lykilmælisnið á höfuðborgarsvæðinu, eða um rúmlega 8%. Þessi mikla aukning kemur í kjölfar mikillar aukningar í síðasta mánuði.  Leita þarf aftur til ársins 2007 til að finna hlutfallslega meiri aukningu milli september mánaða. Umferðaraukningin nam rúmum 12 þúsund ökutækjum á dag, um mælisniðin þrjú.

Nýtt met var slegið en aldrei hafa fleiri ökutæki farið daglega um mælisniðin þrjú á höfuðborgarsvæðinu í einum mánuði eða rúmlega 161 þús. ökutæki á dag.

Mest jókst umferðin um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 9,8%.

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016
Nú hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu, ef marka má þessi þrjú mælisnið, aukist um 6,8% það sem af er ári miðað við sama tímabil á síðasta ári. Enn og aftur þarf að leita aftur til ársins 2007 til að finna hlutfallslega meiri aukningu miðað við árstíma.  Til marks um hvað þetta þýðir í raun þá segja þessar tölur það að samtals hafa farið tæplega 41 milljón ökutækja um sniðin þrjú frá áramótum til september loka.

Umferð eftir vikudögum

Umferð eftir vikudögum í september var þannig að föstudagar voru stærstir en minnst var ekið á sunnudögum.  Mest jókst umferðin á laugardögum en minnst var aukningin á þriðjudögum. Umferðin á bíllausa daginn 22. sept. var rúmlega 4% yfir meðaltali mánaðarins með 167.921 ökutæki. Ef helgarumferðin er ekki talin með þá reyndist hann 2% undir meðalumferð virkra daga.

Horfurnar út árið 2016
Miðað við fyrri ár má búast við að aukningu í þeim þrem mánuðum sem eftir lifir árs. Gangi það eftir gæti heildarumferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um 6,5% nú í ár miðað við síðasta ár.  Þetta er gríðar mikil aukning á ársgrundvelli fyrir þetta svæði, því aðeins einu sinni áður hefur umferðin aukist hlutfallslega meira en það var á milli áranna 2006 og 2007 þá jókst hún um 9,1% á milli ára, í umræddum mælisniðum.

Þessi mikla aukning nú í ár kallar á vangaveltur um hvað valdi, því veðurfar og fjöldi ferðamanna hefur mun minni áhrif innan höfuðborgarsvæðisins en úti á Hringvegi; þá verður að teljast líklegast að aukin umsvif (hagvöxtur) í þjóðfélaginu drífi aukninguna áfram, að langmestu leiti.

Talnaefni