Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin í júnímánuðum frá 2005
  • Umferðin eftir vikudögum
  • Umferðin eftir mánuðum

Met slegin en hóflegri vöxtur umferðar á höfuðborgarsvæðinu

samt aldrei fleiri bílar ekið um mælisnið Vegagerðarinnar

19.7.2016

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um rúm 4 prósent í júní sl. sem er ekki eins mikill vöxtur umferðar og á Hringveginum en eigi að síður met. Aldrei áður hafa jafnmargir bílar ekið um mælisniðin þrjú á svæðinu. Frá áramótum hefur umferðin aukist um tæp 7 prósent og stefnir í um 5 prósenta aukningu í ár.

Milli mánaða 2015 og 2016
Umferðin jókst um 4,2% í nýliðnum júní miðað við sama mánuð á síðasta ári um þrjú mælisnið á höfuðborgarsvæðinu. Umferðin jókst mjög svipað í öllum mælisniðum en þó mest um mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku eða um 4,8%.

Nýtt met var slegið í nýliðnum mánuði en aldrei áður hafa jafn margir bílar farið yfir sniðin þrjú, að meðaltali á dag, í júní mánuði. 

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016
Það sem af er ári hefur umferðin nú aukist um 6,7% frá áramótum, fyrir mælisniðin þrjú, á höfuðborgarsvæðinu.  Leita þarf aftur til ársins 2007, til að finna sambærilega eða meiri aukningu miðað við árstíma.

Umferð eftir vikudögum milli áranna 2015 og 2016
Umferðin hefur aukist svipað alla vikudaga en mest hefur aukningin orðið í helgarumferðinni eða um 7,4% en aukningin á virkum dögum er 6,4%.  Mest er ekið á miðvikudögum og næst mest á þriðjudögum.  Þetta er athygliverð breyting því undanfarin ár hefur gjarnan verið mest ekið á föstudögum.

Horfur út árið  2016
Nú stefnir í að umferðin á höfuðborgarsvæðinu gæti aukist um rétt rúmlega 5% á yfirstandandi ári miðað við síðasta ár.  Gangi þessi spá eftir yrði um mestu aukningu að ræða síðan fyrir hrun.  Þó að stefni í talsverða umferðaraukningu á höfuðborgarsvæðinu er áætlaður vöxtur þar mun hóflegri en búist er við á Hringvegi, sbr. fyrri frétt þar um

Verði þetta raunin þá lítur út fyrir að vísitala vergrar landsframleiðslu (hagvöxtur) og vísitala  í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu falli algerlega saman, sjá vísitölulínurit í fréttinni eða í meðfylgjandi talnaefni.