Fréttir
  • Yfirverkstjórar á námskeiði um öryggismenningu. Margrét Edda Ragnarsdóttir hjá Gemba fræðir um Lean stjórnun.
  • Pálmi Þór Sævarsson svæðisstjóri á Vestursvæði sýnir hvernig töflustjórnun virkar.
  • Námskeið um öryggismenningu í húsakynnum Vegagerðarinnar.

Mesta áskorun öryggismála er að breyta menningunni

Framfarir í öryggismálum hjá Vegagerðinni

24.6.2022

Vegagerðin hefur í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Gemba staðið fyrir öryggismenningarnámskeiðum fyrir starfsfólk sitt undanfarnar vikur. Miklar framfarir hafa orðið í öryggismálum hjá Vegagerðinni að sögn Pálma Þórs Sævarssonar svæðisstjóra Vestursvæðis en betur má ef duga skal.

Öryggismenningarnámskeið Gemba voru fyrst haldin á Vestursvæði Vegagerðarinnar að frumkvæði Pálma Þórs svæðisstjóra fyrir tveimur árum. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öryggismálum og fór að vinna markvisst að úrbótum þegar ég varð svæðisstjóri árið 2018. Mér fannst margt ábótavant í því sem við vorum að gera og því settum við okkur það markmið að vera fremst í flokki hjá Vegagerðinni í þessum málum,“ segir Pálmi sem einnig starfar í öryggisráði Vegagerðarinnar.

„Við höfum markvisst verið að bæta okkur og mér finnst fólk almennt mjög móttækilegt,“ segir Pálmi og skynjar töluverða breytingu í umræðunni um öryggismál. „Það er misjafnt hvað fólk er tilbúið í þetta en langflestir kalla eftir meiri öryggisaðgerðum frekar en hitt.“

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar í öryggismálum síðustu ár en þó hefur reglum ekki verið fjölgað að neinu marki. „Þetta snýst miklu meira um að breyta menningunni. Við viljum auka vitund starfsfólks og samkennd þannig að fólk upplifi að það sé á ábyrgð allra að huga að öryggismálum, ekki að fólk hlýði bara einhverjum reglum sem eru settar af yfirmönnum í Reykjavík.“

Öryggismenningarnámskeiðið vakti mikla lukku á Vestursvæði þegar það var haldið þar. „Enda beindu þau sjónum sérstaklega að breyttri menningu og hugsunarhætti sem var einmitt það sem við vildum breyta.“ Vegna góðs árangurs á Vestursvæði var ákveðið að bjóða upp á námskeiðin á landsvísu.

Hvað einkennir góða öryggismenningu?

Umsjónarmenn námskeiðanna eru þær Ásdís Kristinsdóttir og Margrét Edda Ragnarsdóttir eigendur Gemba. Ásdís og Margrét Edda hafa báðar viðamikla reynslu sem stjórnendur í orkugeiranum en fyrirtæki í þeim geira hafa verið á mikilli og góðri vegferð í öryggismálum.

Öryggismenningarnámskeiðin voru nokkur og mislöng. Yfirmenn á svæðum og þjónustustöðvum fóru á tveggja daga námskeið en önnur styttri voru haldin fyrir starfsfólk um allt land.

Á fyrri degi lengra námskeiðsins er farið sérstaklega yfir hvað einkennir góða öryggismenningu, hvert er hlutverk leiðtoga í að styðja góða öryggismenningu, og hvað einkennir fyrirtæki sem hafa náð góðum árangri í öryggismálum. Farið er yfir nokkur verkfæri sem reynst hafa vel til að styðja og bæta öryggismenningu fyrirtækja, þar á meðal svokallaðar stuðningsferðir sem snúast um að yfirmenn fara á vettvang til að ræða öryggismál við starfsfólk á óformlegan hátt. Stuðningsferðir æfa bæði yfirmenn og starfsfólk í því að ræða öryggismál. Á námskeiðinu kemur fram að það er stórt skref en mikilvægt að geta rætt opinskátt um öryggismál, bæði það sem fer úrskeiðis og hvað sé hægt að bæta.

Seinni daginn er rædd markmiðasetning og mælikvarðar. Þá er einnig kynnt til leiks svokölluð 5S aðferðarfræði sem tengist skipulagi á vinnusvæðum. Aðferðafræðin er áhrifarík og þekkt um heim allan en þar er lögð áhersla á gott skipulag, merkingar og verklag með tilliti til öryggis og skilvirkni. Einnig er farið er yfir mikilvægi skráningar í öryggisgrunn og öryggisfundi, eða svokallaða töflufundi.

En hvað er það sem einkennir góða öryggismenningu? Á námskeiðinu er komið inn á að einkenni fyrir góða öryggismenningu er þegar öryggi er grunnurinn að öllu sem við gerum og sameiginleg ábyrgð allra, unnið er stöðugt að því að gera betur í öryggismálum og að læra af mistökum hvers annars. Góð öryggismenning er þegar allir starfsmenn finna til ábyrgðar í öryggismálum, hvort sem það er framkvæmdastjórinn, forstjórinn eða starfsmaðurinn sem byrjaði í gær.

Töflustjórnun breiðist um landið

Pálmi Þór segir Vegagerðina ekki kominn á þann stað sem hún vilji vera á en allt stefni í rétta átt. „Eftir námskeiðið með Gemba þróuðum við á Vestursvæði öryggistöflur. Þær notum við á morgunfundum þar sem við förum yfir verkefni dagsins og vikunnar og förum í leiðinni yfir öryggismál,“ segir Pálmi sem segir reynsluna góða þó hún hafi verið aðeins endasleppt vegna covid. „Við erum með slíkar töflur á öllum þjónustustöðvum Vestursvæðis og verkstæðum okkar. Verkefnið hefur vakið athygli innan Vegagerðarinnar og nú er verið að innleiða þessar töflur á öllum þjónustustöðvum á landinu.“

En er langt í land í öryggismálum hjá Vegagerðinni? „Já, það er ennþá dálítið langt í land, en við höfum tekið stór skref fram á við í öryggismálum síðustu árin. Draumur okkar er að vera í fremsta flokki í öryggismálum. Það á að vera okkar mikilvægasta verkefni að tryggja bæði öryggi okkar og vegfarenda. Enda er ekkert verk það mikilvægt að við þurfum að hætta eigin öryggi til að vinna það.“

Þessi grein birtist í 4. tbl. Framkvæmdafrétta 2022.   Rafræna útgáfu má finna hér.     Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.