Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Meiri aukning í júlí í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu en á Hringvegi

óvenjulegt er að umferð á höfuðborgarsvæðinu aukist meira en á Hringveginum á sumrin

2.8.2017

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um tæp tíu prósent í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og er þetta heldur meiri aukning er varð á Hringveginum í sama mánuði. Óvenjulegt er að umferð á höfuðborgarsvæðinu aukist meira en á Hringveginum á sumrin. Umferðin í ár stefnir í að aukast um átta prósent sem er minna en á milli áranna 2006 og 2007 sem er metárið. Aukningin í júlí í umferðinni frá árinu 2007 er um 23 prósent.

Breyting milli mánaða 2016 og 2017
Áætlað er að umferðin hafi aukist um 9,5% á milli júlí mánaða 2016 og 2017.  Þetta er meiri aukning en á Hringveginum, sem er fáséð á þessum árstíma.

Mest er áætlað að umferð hafi aukist á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 14%.

Umferðin hefur aldrei mælst meiri í júlí mánuði um þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, en alls fóru rúmlega 159 þúsund ökutæki daglega um þessi þrjú snið.  

Breyting milli áranna 2016 og 2017, frá áramótum
Umferð hefur nú aukist um tæp 9%, frá áramótum, miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þessi aukning er rétt tæplega þremur prósentustigum meiri miðað við sama tíma á síðasta ári og einu prósentustigi meiri en met vaxtarárið 2007. 

Umferð eftir vikudögum
Umferðin jókst alla vikudaga í nýliðnum júlí, mest á sunnudögum eða um rúmlega 16% en minnst á þriðjudögum eða um 6,4%.  

Í júlí var mest ekið á fimmtudögum en minnst á sunnudögum. 

Horfur út árið 2017
Nú stefnir í að umferðin geti aukist um 8% milli áranna 2016 og 2017 sem er, ef af verður, rúmlega einu prósentustigi minni aukning en varð á milli áranna 2006 og 2007, sem héldi þá enn meti sínu í hlutfallslegum vexti.  En gangi þessi spá eftir mun, aftur á móti, heildarumferðin verða um 23% meiri en hún var árið 2007, í umræddum mælisniðum í júlímánuði.