Meira en 50% samdráttur umferðar um Mýrdalssand
gríðarlegur samdráttur á Hringvegi
Umferðin á Hringveginum í mars dróst gríðarlega mikið saman frá sama mánuði í fyrra eða um 24,4 prósent. Mestur varð samdrátturinn á Mýrdalssandi en þar dróst hún saman um heil 52,3 prósent. Þar hafði straumur ferðamanna verið hvað mestur og aukningin árin á undan líka gríðarmikil. Þetta eru augljós áhrif Covid-19 og hruns í ferðamennskunni.
Milli
mánaða 2019 og 2020
Enn meiri
samdráttur varð í umferð, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, en
varð á höfuðborgarsvæðinu í mars mánuði eða 24,4% samdráttur. Þessi samdráttur núna kemur ofan
í mikinn samdrátt sem varð á Hringveginum á síðasta ári í mars. Umferð á öllum
svæðum dregst mikið saman en mest dregst umferðin saman yfir lykilsnið á
Norðurlandi eða um tæplega 36%. Minnst dregst umferðin saman á og í grennd
við höfuðborgarsvæðið eða um 18,5%.
Samdrátturinn í einstaka sniðum er allt frá 16,6% (snið við Úlfarsfell) og upp í 52,3% (snið á Mýrdalssandi). Þannig að hér er um gríðarlegt fall að ræða í umferð og virðist vera mest á þeim stöðum sem áður höfðu aukist hvað mest meðan ferðamannaþenslan var hvað mest.
Umferðin í
mars reyndist vera u.þ.b. mitt á milli marsumferðar árið 2015 og 2016.
Frá
áramótum
Nú hefur
umferðin dregist saman um tæp 11% frá áramótum. Mest hefur umferð dregist
saman um lykilsnið á Norðurlandi eða um 21% en minnst um lykilsnið á og í grennd
við höfuðborgarsvæðið eða um 6,1%.
Umferð
vikudaga frá áramótum
Umferð
hefur dregist mikið saman í öllum vikudögum en mest þó um helgar og mest á
sunnudögum eða um 16,7% en minnst á þriðjudögum eða um 8,3%. E.t.v. gefur
þetta vísbendingu um að frístunda- og ferðamannaumferð hafi dregist meira saman
en vinnuumferð.

Horfur út
árið
Vanalega hefur ekki verið birt spá um umferð út árið á Hringvegi fyrr en í byrjun maí þar sem umferð á Hringvegi er mun sveiflukenndari yfir vetrartímann en á höfuðborgarsvæðinu. En
þessir fordæmalausu tímar kalla á að það sé a.m.k. skoðað hvað spálíkanið segir en
gjalda verður varhug við því að nákvæmnin er ekki mikil og er þetta meira sett fram
til að gefa vísbendingu. Ef umferðin hegðar sér hlutfallslega innbyrðis
milli mánuða eins og í meðalári þá gæti hún dregist saman um rúmlega 11%.
En þetta er auðvitað háð því hversu fljótt hagkerfið og ferðaþjónustan verður
að ná sér. Það gildir þá það sama og á höfuðborgarsvæðinu að þetta getur
bæði verið frekar svartsýn spá eða of bjartsýn, allt eftir því hversu fljótt
samfélagið réttir úr kútnum.