Fréttir
  • Ökuhraði á Hringvegi hefur lækkað síðustu ár á flestum mælingastöðum.

Meðalhraði á Hringvegi lækkar milli ára

Skýrsla umferðardeildar Vegagerðarinnar um ökuhraða á þjóðvegum 2004 - 2018

30.12.2019

Meðalökuhraði á Hringveginum sumarið 2018 var 92,6 km/klst sem er 0,7 km/klst lægri en sumarið áður. Í heildina hefur meðalhraði á Hringveginum lækkað um 4,4 km/klst frá árinu 2004.

Þetta kemur fram í skýrslu umferðardeildar Vegagerðarinnar þar sem birt er samantekt á ökuhraða á þjóðvegum fyrir árin 2004 til 2018. Mælistaðir eru 14 talsins, þar af tveir á höfuðborgarsvæðinu, 11 á Hringvegi utan þéttbýlis og einn utan Hringvegar.

Meðalhraði sumarið 2018 hækkaði á þremur mælistöðum af 14 frá sumrinu á undan, að meðaltali um 1 km/klst. Af þessum stöðum er einn staður þar sem hraðinn hefur hækkað tvö ár í röð, það er á Hellisheiði.  Á 11 stöðum hefur ökuhraði hins vegar lækkað, að meðaltali um 1 km/klst.

Hlutfall ökumanna sem aka hraðar en 30 km/klst yfir leyfilegum hámarkshraða hefur lækkað um 0,5% sumarið 2018 miðað við sumarið 2017.  Mest hækkaði meðalhraði við Reykjanesbraut hjá bensínstöð við Dalveg um 1,4 km/klst. Mest lækkaði meðalhraði á Hringvegi við Hvassafell í Norðurárdal um 2,2 km/klst.

Þeir sem vilja glöggva sig nánar á einstökum mælingum geta skoðað skýrsluna hér.