Fréttir
  • Meðalhraðaeftirlit - undirritun samnings

Meðalhraðaeftirlit - nýjung á Íslandi

byrjar á Grindavíkurvegi og í Norðfjarðargöngum

22.9.2021

Samstarfssamningur um sjálfvirkt hraðaeftirlit með löggæslumyndum hefur verið undirritaður en um er að ræða svokallað meðalhraðaeftirlit. Tilgangurinn er að auka umferðaröryggi en vélarnar mæla meðalhraða á ákveðnum köflum og ef sá hraði er yfir löglegum hraða er sektað. Fljótlega verður tekið upp slíkt eftirlit á Grindavíkurvegi og í Norðfjarðargöngum.

Það var Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem staðfesti nýjan samstarfssamning Vegagerðar, Samgöngustofu og Ríkislögreglustjóra um sjálfvirkt hraðaeftirlit með löggæslumyndavélum þann 21. september.

Markmið samningsins er að fækka banaslysum og alvarlega slösuðum í umferðinni með markvissu hraðaeftirliti á völdum stöðum á þjóðvegum landsins.

Myndavélar hafa nú þegar verið settar upp á Grindavíkurvegi og í Norðfjarðargöngum og verða þær fljótlega teknar í notkun. Þá er stefnt að því að setja upp samskonar vélar á næstu mánuðum á Þingvallavegi þar sem hann liggur í gegnum þjóðgarðinn. Fleiri kaflar eru og til skoðunar m.a. hvalfjarðargöng.

Samningurinn er gerður á grundvelli umferðaröryggisáætlunar sem er hluti af samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

Lögreglustjóraembættið á Vesturlandi sér um umsýslu og úrvinnslu gagna úr myndavélum í umboði Ríkislögreglustjóra. Vegagerðin greiðir á samningstímanum ígildi tveggja stöðugilda á ári til að annast verklega framkvæmd við úrvinnslu sekta og kostnað vegna tæknimála, samtals að hámarki 15 milljónir króna á ári.

 

Myndin sem fylgir var tekin við undirritun samningsins. 
Frá vinstri: Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, Kristín Helga Markúsdóttir framkvæmdastjóri stjórnsýslu og þróunar hjá Samgöngustofu, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.