Fréttir
  • Nokkuð tjón varð á laugardaginn þegar mastur með tveimur myndavélum brotnaði við Hvalnesskriður.
  • Á mastrinu sem brotnaði voru tvær vefmyndavélar og þrjár sólarsellur.
  • Skilti fuku á hliðina.
  • Skiltin á Hlíðarsandi líkt og rúlluðust upp í vindinum.
  • Umferðarmerkin á Hlíðarsandi sveigðust í vindinum.
  • Veðrið á þeim tíma sem mastrið brotnaði.
  • Skilti á Hlíðarsandi.

Mastur í Hvalnesskriðum brotnaði í ofsaveðri

Talsvert tjón

12.1.2021

Mastur í Hvalnesskriðum sem á voru tvær myndavélar og þrjár sólarsellur brotnaði í ofsaveðri sem gekk yfir austanvert landið á laugardaginn. Fjölmörg umferðarskilti fuku á hliðina eða skemmdust á þessum slóðum.

 „Vegurinn var þakinn möl og umferðarmerki liggja víða á hliðinni og stikur hafa feykst í burtu. Þá voru fjölmörg umferðarmerki á Hlíðarsandi skemmd, það er eins og rúllað hafi verið upp á þau,“ segir Þorleifur Olsen flokksstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Höfn sem var á leið aftur heim til Hafnar þegar í hann náðist á mánudaginn.  Helsta verkefni dagsins hjá starfsmönnum Vegagerðarinnar var að skoða aðstæður í Hvalnesskriðum þar sem myndavélamastur brotnaði. „Við vorum að koma frá því að hreinsa brakið en þetta er töluvert tjón. Báðar myndavélarnar eru ónýtar og ein af þremur sólarsellum. Þá skemmdist stélið á rafmagnsrellu og spaðarnir fuku út í veður og vind.“

Veðrið fór mikinn á laugardaginn síðasta á austanverðu landinu, hviður fóru upp í 50 metra á sekúndu. Slík veður eru þó ekki óþekkt á þessum slóðum, sér í lagi á Hlíðarsandi. Þorleifur segir þetta í annað sinn sem mastur brotnar á svipuðum stað. „Það gerðist síðast fyrir rúmum áratug.“

Myndavélarnar á mastrinu eru hluti af Vegsjá Vegagerðarinnar sem er  sem er safn vefmyndavéla um allt land þar sem hægt er að fylgjast með færð og aðstæðum á vegum. Vaktstöð Vegagerðarinnar nýtir einnig vélarnar til upplýsingaöflunar.

Einhvern tíma tekur að setja upp nýtt mastur með nýjum myndavélum og á meðan verður ekki hægt að skoða myndir frá Hvalnesskriðum í Vegsjánni.