Fréttir
  • Unnið við að leggja malbik
  • Unnið við að leggja malbik

Malbik á Íslandi ekkert öðruvísi

Sömu aðferðir, sömu efni notuð hér á landi og erlendis að megninu til

16.12.2016

Malbik sem Vegagerðin notar á vegum sínum er er yfirleitt sömu gerðar og það malbik sem notað er í nágrannalöndum enda framleitt í samræmi við Evrópustaðla hvað varðar kröfur til steinefnis, biks og malbiksblöndu. Sama á við um aðferðir og kröfur við útlögn malbiksins en þar hafa reglur verið hertar mörg undanfarin ár og eftirlitið aukið með aukinni tækni. Steinefni eru og hafa verið flutt inn, m.a. vegna þess að þau eru ljósari á litinn, en innlend gæðasteinefni eru nánast jöfn að gæðum og þau innfluttu.

Þannig að gerð malbiks á Íslandi, vinnuaðferðir við útlögn, eftirlit og kröfur jafnast á við það sem gerist í nágrannalöndunum og hefur verið þannig mörg undanfarin ár.

Hjólför eftir nagladekkin

Helsti orsakavaldur hjólfara í malbiki er slit af völdum nagladekkja. Talið er að nagladekkjaslit valdi um 70 prósentum af þeim hjólförum sem myndast en sig og skrið vegna þungaumferðar um 30 prósentum. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á samsetningu svifryks til að kanna hvaðan rykið kemur m.a. rannsóknum styrktum af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Í rannsókn frá árinu 2003 kom í ljós að malbik var um 55% af svifrykinu en í samsvarandi könnun 2013 var malbikið aðeins 17% en á móti var þar þá að finna ösku sem ekki hafði áður fundist eða sem nam 18%. Þetta er mikill munur og gæti skýringin falist í fækkun nagladekkja og slitsterkara malbiki. Unnið er að frekari rannsóknum á þessu.

Farið eftir Evrópustöðlum

Vegagerðin fer eftir Evrópustöðlum hvað varðar kröfur til steinefnis.  Þar er gerð krafa um frostþol, styrkleika, brothlutfall, kornalögun og slitþol.  Þessar kröfur fara eftir umferð sem fer um vegi sem verið er að leggja á. 

Í útboðsgögnum Vegagerðarinnar er gerð krafa um að verktaki sýni fram á að steinefnin uppfylli kröfur sem gerðar eru til steinefna.  Á undanförnum árum hefur verið flutt inn steinefni frá Noregi í umferðarmikla vegi á höfuðborgarsvæðinu og voru  yfirlagnir Vegagerðarinnar eingöngu gerðar úr því efni sl. sumar. 

Einnig er gerð krafa um holrýmd í malbikinu sem segir til um þjöppun malbiksins og til þess að ná tilskilinni holrýmdinni þarf bikið að vera a.m.k. 135 °C við útlögn.   Niðurstöður úr hitamyndavélum sýna að hitastig við útlögn stenst kröfur. Hitamyndavélar voru fyrst notaðar í tilraunaskyni fyrir nokkrum misserum en þær voru alfarið notaðar sl. sumar við allar útlagnir.

Verktaki þarf að sýna fram á slitþol malbiksins hvað varðar nagladekkjaáraun, með niðurstöðum úr stöðluðu prófi.  

Gerð er krafa um skriðeiginleika malbiksins til að koma í veg fyrir að malbikið formbreytist við mikið umferðarálag.

Eins og fram kemur í þessari upptalningu eru gerðar miklar kröfur um steinefni, malbiksblöndu og útlagnar íslensks malbiks. 

Teknir eru kjarnar úr útlögðu malbiki til þess að sannreyna að malbikið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar.  Malbikskjarnarnir sýna einnig þykkt á útlögðu malbiki sem á að vera 100 mm á nýbyggingum og 45 – 50 mm á yfirlögnum á umferðarmiklum götum.

Sömu kröfur til biks

Gerðar eru sömu kröfur til eiginleika biks á Íslandi og annars staðar í Evrópu og því ekki rétt sem haldið hefur verið fram að hér á landi sé verið að nota lakara bik en víða í nágrannalöndunum. Sérstökum íblöndunarefnum hefur verið bætt í malbik á umferðarmiklar götur hér á landi sem auka viðnám gegn skriði.

Hvað varðar hitastig við útlögn á malbiki þá hefur Vegagerðin frá og með sl. sumri gert eftirfarandi kröfu:  Við útlögn skal nota hitamyndavél með GPS staðsetningu sem mælir allt útlagnarþversniðið. Gögn úr hitamyndavélum skulu vera aðgengileg fyrir verkkaupa (Vegagerðina).  Þetta er gert til að tryggja enn betur en verið hefur að hitastig við þjöppun sé nógu hátt.

Ef hitastig malbiks er ekki nógu hátt við völtun þá næst ekki þjöppun í malbikið og kemur það fram við mælingu á holrýmd í malbikinu.  Nægjanleg þjöppun er algjört skilyrði fyrir því að malbik heppnist vel.

Nagladekk eru ráðandi varðandi slit malbiksins og þau valda því að endingartími malbiks hér á landi er mun styttri en þar sem lítil eða engin notkun er á negldum hjólbörðum.  Meðalending á malbiki hér á landi er 8 – 10 ár.  Líkt og fyrr var sagt þá er hjólfaramyndun í malbiki talin vera um 70 % vegna nagladekkja og um 30 % vegna formbreytinga undan umferðarþunga (sig og skrið).  Vegagerðin hefur á umferðarmiklum vegum notað stífara bik til að minnka hjólfaramyndun vegna formbreytinga.

Eftirlit með malbiksútlögnum er unnið af verkfræðistofum ásamt eigin eftirliti Vegagerðarinnar.

Annað í göngum

Því hefur verið haldið fram að malbik í Hvalfjarðargöngum hafi mun lengri endingartíma en almennt gerist á vegum Vegagerðarinnar.  Það er rétt að endingartíminn er lengri en ef skoðaður er fjöldi bíla sem ekur á slitlaginu á líftíma þess þá fóru um 13,8 milljónir bíla um Hvalfjarðargöng á líftíma slitlagsins en meðaltal á sambærilegu slitlagi  hjá Vegagerðinni er 20,7 milljónir bíla. Auk þess er veðrunarálag í göngum mun minna en utan þeirra.

Á undanförnum árum hafa fjárveitingar til viðhalds bundinna slitlaga verið langt undir áætlaðri þörf.  Samkvæmt áætlun fyrir árið 2016, sem unnin er í viðhaldsstjórnunarkerfi Vegagerðarinnar fyrir bundin slitlög, var áætluð fjárþörf til bundinna slitlaga á Suðursvæði 3,5 milljarðar kr. svo dæmi sé tekið.  Fjárveitingin í ár er 1,2 milljarða kr. eða einungis um 1/3 af útreiknaðri þörf.

Benda má á umfjöllun Morgunblaðsins 15. og 16. desember þar sem Reykjavíkurborg bendir m.a. á að ekki hafi verið dregið úr gæðum malbiks sem þeir nota en að slitlagstegundir og efni sé valið eftir hversu mikil umferð er á götunum.