Fréttir
  • Mynd frá framkvæmdunum í sumar.
  • Mynd frá framkvæmdunum í sumar.
  • Hönnun sandfangarans.

Lokið við garð út í Einholtsklett

2.11.2020

Lokið er framkvæmdum við sandfangara út í Einholtsklett í Hornafirði. Sandfangarinn mun draga úr sandburði úr vestri inn á Grynnslin utan við Hornafjarðarós. Verkið hefur sóst vel þrátt fyrir að veðrið hafi oft gert verktakanum skráveifu í sumar.

Undirbúningur að framkvæmdinni hefur staðið yfir í nokkur ár en Vegagerðin hefur séð um undirbúning og hönnun garðsins auk þess sem starfsmenn hennar hafa umsjón með framkvæmdinni.

„Tilgangurinn með byggingu sandfangarans út í Einholtskletta er að draga úr sandburði úr vestri inn á Grynnslin utan við Hornafjarðarós, sérstaklega „efnisskotum“ sem koma í þrálátum suðvestanáttum og valda því að dýpi á Grynnslunum minnkar snögglega,“ útskýrir Jóhann Þór Sigurðsson á hafnadeild Vegagerðarinnar.

Framkvæmdin hófst 2. júní 2020 þegar verktakinn JG Vélar ehf. fór að lagfæra vegi og vinna í námu. Útkeyrsla í sjálfan garðinn byrjaði viku síðar. Verkið snerist um að byggja sandfangara milli Einholtskletta og Suðurfjöru úr sprengdum kjarna og grjóti. Í verkinu var notuð grjótnáma við Skinneyjarhöfða sem gefur mjög lítið af stóru grjóti. Hins vegar er náman ekki í nema um 15 km fjarlægð frá verkstað og mun nær og aðgengilegri en betri grjótnámur. Stóra grjótið í verkið var hins vegar tekið úr endum sjóvarnar á Suðurfjörutanga þar sem minna mæðir á og tekur hönnun sandfangarans mið af því að nýta það sem best.

Verkið hefur verið unnið hratt og vel enda skiptir máli að klára verkefni sem þessi áður en vetur skellur á því vinnusvæðið liggur fyrir opnu hafi.

Verktakinn fékk raunar að finna fyrir náttúruöflunum í sumar að sögn Jóhanns. „Það kom á óvart og skemmdi fyrir að fá yfir okkur nokkra slæma veðurkafla sem sendu öldur yfir tveggja metra á hæð,“ lýsir Jóhann en í júlí voru þrír dagar þar sem ölduhæð var fjórir metrar sem er óvenjulegt um há sumar.  Þá skolaðist um einn meter af öllum garðinum einnig tók aldan aðkomuvegi sem hurfu á haf út.

Heildarlengd garðsins er um 205 metrar en magn efnis sem notað var í verkið er um 35.800 rúmmetrar.

Verkinu lauk í lok september.

Greinin birtist fyrst í 6. tbl Framkvæmdafrétta sem má skoða í heild hér.