Fréttir
  • Mikill áhugi var á mælunum.
  • Martin Möller hafði umsjón með vinnustofunni í samvinnu við Hafliða Eirík Guðmundsson.
  • Tilbúinn loftgæðamælir.
  • Á litlu svæði í Þýskalandi eru 193 mælar uppsettir og í notkun.
  • Vinnustofan heppnaðist vel.
  • Mælirinn er einfaldur í uppsetningu og notkun.

Loftgæðamælar í lykilhlutverki

Haldin var vel sótt vinnustofa þar sem farið var yfir uppsetningu og notkun á einföldum loftgæðamælum. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar

5.5.2022

Haldin var vinnustofa í tengslum við rannsóknarverkefnið Þátttaka almennings í vöktun á svifryki sem unnið var af ReSource International og styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Tilgangurinn var að kynna einfalda loftgæðamæla fyrir þátttakendum og leiðbeina þeim við uppsetningu og notkun á mælunum.

Vinnustofan var haldin í húsnæði Vegagerðarinnar, Suðurhrauni 3 í Garðabæ, og var hún vel sótt af sérfræðingum í loftgæðamælingum. Umsjón var í höndum umhverfisráðgjafanna Marteins Möllers og Hafliða Eiríks Guðmundssonar. Allir þátttakendur fengu mæla til að taka með sér heim, setja upp og hefja mælingar.

Svifryksmengun í nærumhverfinu mæld

Markmiðið með þessum einföldu mælum er að koma upp þéttara net svifryksmæla um allt Ísland til þess að fá betri upplýsingar og víðari yfirsýn um svifryksmengunina í nærumhverfi almennings. Einnig nýtast þessi gögn til dæmis við rannsóknir á dreifingu svifryks um Ísland, sérstaklega hvað varðar öskufall, mengun af völdum flugelda, jarðvegsfok eða nagladekksnotkun.

Verkefnið er framlenging á alþjóðlegu verkefni sensor.community (áður luftdaten.info). Mælarnir sem notaðir eru í þessu verkefni eru aðgengilegir og einfaldir með netviðmót sem sér um að hlaða upp mælingum sjálfvirkt og birta á vefsíðunni sensor.community.

Á vefsíðu sensor.community má sjá að net mælanna orðið mjög þétt í gervallri Evrópu, að Íslandi undanskildu. Vonir standa þó til þess að það breytist í nánustu framtíð.